Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:00:57 (4683)

1999-03-10 12:00:57# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:00]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá umhvn. um þáltill. sem var flutt sem þáltill. um gerð þjóðgarða á miðhálendinu. Þáltill. er flutt á þessu þingi að nýju en var áður flutt á fyrri þingum. Á þeim þingum fékk tillagan ítarlega umfjöllun í umhvn. og umsagnir og gestir komu til nefndarinnar en hún var ekki afgreidd.

Eftir ítarlegar umræður að nýju í umhvn. að undanförnu varð niðurstaðan sú að afgreiða þáltill. en þó þannig breytta að hún fengi nýja fyrirsögn og héti nú: ,,Tillaga til þingsályktunar um Vatnajökulsþjóðgarð.`` Er sú tillaga lögð hér fram.

Efni tillögunnar var einnig breytt þannig að tillagan nær nú til þjóðgarðs sem næði til Vatnajökuls eingöngu. Gengur þáltill. í þá áttina að kannaðir verði möguleikar á slíkum þjóðgarði.

Ég vek athygli á því að með þessu er ekki verið að leggja til að þjóðgarðurinn næði til jaðarsvæða Vatnajökuls þó svo að um leið sé bent á að þar séu ýmis svæði sem njóti verndar.

Ég vil einnig leggja áherslu á að með hugsanlegum þjóðgarði á Vatnajökli væri ekki verið að skerða umferð manna og þá nýtingu sem er nú á jöklinum, heldur fyrst og fremst að skapa möguleika á aukinni vernd, vekja athygli á einstöku svæði Vatnajökuls og stuðla að vísindalegum rannsóknum sem geta án efa leitt til merkra niðurstaðna vegna sérstöðu jökulsins.