Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:15:18 (4686)

1999-03-10 12:15:18# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:15]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Tillagan um þjóðgarð á Vatnajökulssvæðinu, sem er til umræðu, er afar merkileg og um hana var mikill og góður samhugur í umhvn. eins og komið hefur fram. Þetta er gagnmerk tillaga, afar vel unnin, framsækin og metnaðarfull. Í raun og veru er verið að leggja út á nýjar brautir í umhverfismálum með þessari tillögu og er það vel. Flutningsmaður, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, er að horfa inn í framtíðina með henni og við tökum heils hugar undir hana.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom eilítið inn á fjórða svæðið í þessari heildstæðu þáltill. þar sem hann talar um friðland að fjallabaki og Heklusvæðið. En ágætur vísindamaður, dr. Borgþór Magnússon hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, hefur einmitt skrifað mjög margar greinar um eldfjallaþjóðgarða á Heklusvæðinu. Þær greinar eru einnig mjög merkar og merkilegar tillögur sem falla nokkuð að þeim tillögum sem hér eru fram settar.

Ég tek undir að það er mjög nauðsynlegt að ná samkomulagi við alla aðila um þessi mál en við getum verið stolt af því í umhvn. að samþykkja þessa metnaðarfullu og góðu tillögu og hún er spor í rétta átt í þessu máli.