Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:35:51 (4692)

1999-03-10 12:35:51# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef áður lýst skoðunum mínum á þeirri tillögu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti um fjóra þjóðgarða á miðhálendinu. Ég er þeirrar skoðunar að samþykkja hefði átt þá tillögu. Hv. þm. á þakkir og hrós skilið fyrir að hafa komið fram með þetta mál. Hann á það hins vegar ekki skilið að tillagan sé tekin með þessum hætti og eiginlega að litlu gerð. Mér finnst nefnilega, þó að menn tali um að þetta sé metnaðarfull afgreiðsla af hálfu hv. umhvn. að ég geti ekki fallist á það.

Frá því við vorum að ræða um fjölgun þjóðgarða á síðasta kjörtímabili hafa hlutirnir svolítið breyst. Ekki bara það að ríkisstjórnin hin fyrri hafi ákveðið að ráðast í stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi heldur hefur lögum um náttúruvernd líka verið breytt á þann hátt að auðveldara er fyrir stjórnvöld að ráðast í stofnun þjóðgarða. Mig minnir að það hafi verið 1996 sem við breyttum lögum sem gerði það að verkum að hæstv. umhvrh. getur sett á stofn þjóðgarða að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs og ákveðinna stofnana sem undir hann heyra. Þetta er á valdi hæstv. ráðherra.

Ég hefði því talið að tillaga umhvn. hefði átt að fela í sér áskorun af hálfu Alþingis til umhvrh. um að gera þetta. Það hefði átt að fela honum þetta verkefni vegna þess að hann hefur lagalega stöðu í málinu í dag sem fyrri umhvrh. hafa ekki haft. Ég geri engar athugasemdir við það að menn taki sérstaklega út Vatnajökulsþjóðgarðinn. Ég hefði að vísu talið að í lagi hefði verið fyrst menn fóru þá leið að fela einungis hæstv. umhvrh. að kanna þetta mál, að taka þá alla fjóra inn. Ég er þeirrar skoðunar vegna þess að þessir þjóðgarðar henta vel, kjarni þeirra allra eru jöklar og það vill svo til að að flestum þeirra liggja mörg svæði sem njóta einhvers konar verndar. Í tilviki Vatnajökuls er þar um að ræða mörg friðlýst svæði eins og, ef ég man rétt, Esjufjöll, Kringilsárrani, Lónsöræfi og svo auðvitað Skaftafell, sem er þjóðgarður. Það hefði því verið nokkuð gott mál að taka þá alla til þessarar skoðunar.

Ég hefði hins vegar talið, herra forseti, fyrst menn fara þá leið að fela umhvrh. einungis að kanna möguleika á Vatnajökulsþjóðgarðinum, að við hefðum átt að stíga skrefið lengra, við hefðum átt að fela honum framkvæmd á því.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræðir um það í sinni upphaflegu tillögu, ef ég man rétt, að þetta þurfi að gera í tengslum við mögulega rétthafa. Ég held engir mögulegir rétthafar séu varðandi jökulinn. Ég held að það sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að menn ráðist í þetta verk.

Sagt var af flokkssystur minni, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að það væri vel við hæfi að ganga frá þessu máli, eins og sagt er frá í tillögunni, á árinu 2000 og það ætti ekki að vera margt sem mælir því í móti. Við þekkjum það hins vegar úr heimi stjórnmálanna að menn eru ekki alltaf stórra sanda eða sæva. Það er oft þannig að þegar góðar tillögur koma eins og þessi, sem kemur frá manni sem hefur verið harður í stjórnarandstöðu sinni við núv. ríkisstjórn, að næst kraftaverki stappar ef menn raunverulega ráðast í það að tillögunni samþykktri að koma þessu á fót. Við höfum séð svo mörg dæmi um það og af tiltölulega skammri þingveru gæti ég rakið nokkur mál sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur fengið hér samþykkt sem stjórnarandstæðingur, sem ekki hafa raunverulega orðið að veruleika. (ÓÖH: Þetta eru úrtölur.)

Hins vegar er það svo, herra forseti, af því hv. þm. og formaður umhvn., Ólafur Örn Haraldsson, talar um útölur þá hefur hann ekki hlýtt á mál mitt. Ég er ekki bara að taka undir þessa tillögu heldur er ég að álasa hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni og bregða honum um skort á kjarki og hugrekki. Ég er að bregða honum um það að hann þorir ekki að taka forustu, og er þó mestur jöklamaður í þessum sölum, um að fela flokksbróður sínum hæstv. umhvrh. að ganga frá þessu máli. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur fært góð rök fyrir því að ekki eigi að vera mikið í vegi fyrir því að gera þetta svæði að þjóðgarði. Og þess vegna má auðvitað spyrja hv. þm. út frá hans eigin rökum: Hví skortir hann þá kjark til að koma hér fram og hafa forgöngu um að leggja beinlínis til að umhvrh. verði falið að gera þetta? Það er það sem auðvitað skiptir máli.

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að ráðast eigi í verkefni af þessu tagi. Ég minni á að a.m.k. þingflokkur jafnaðarmanna hefur haft það á stefnuskrá sinni, eins og hér hefur komið fram í fyrri umræðum um þetta mál, að fjölga þjóðgörðum, alveg eins og Alþfl. á tíma síðustu ríkisstjórnar. Alþfl. stóð við það. Við fengum samþykkt í ríkisstjórn að ráðist yrði í að fjölga þjóðgörðum og ráðist yrði í setja upp þjóðgarð á Snæfellsnesi. Inni í honum er jökull, svo ég rifji það aðeins upp fyrir þingheimi.

Ég vil að það komi fram, herra forseti, að margt bendir til þess að ríkisstjórnarskipti kunni að vera í nánd, það kunni að verða breytingar á landslagi stjórnmálanna á þann veg Samfylkingin muni á einhvern hátt koma að landstjórninni. Þá vil ég að það liggi alveg skýrt fyrir að við munum berjast fyrir því, verði þessi tillaga samþykkt, að þetta mál verði ekki einungis kannað heldur verði því hrint í framkvæmd. Ég vil líka að það komi fram, eins og hefur áður birst í ræðum mínum um þetta mál, að ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að samþykkja þessa tillögu og hrinda henni í framkvæmd.

Ég sagði áðan að það væri stefna þeirrar stjórnmálahreyfingar sem ég var kosinn á þing fyrir að fjölga þjóðgörðum. Við höfum bæði innan ríkisstjórnar og utan reynt að efla það. Ég hef gert það sem umhvrh. á síðasta kjörtímabili og ég hef einnig í samvinnu við þá tvo þingmenn sem sitja með mér í Þingvallanefnd reynt að ýta málum fram þar með þeim hætti að við a.m.k. brytum út jaðar þess þjóðgarðs eða þess friðhelga lands sem hefur nú sömu stöðu og þjóðgarður á Þingvöllum. Það hefur ekki tekist á þessu þingi og það er mjög miður. En hin upphaflega hugmynd gerði ráð fyrir því að þar yrði farið í norður frá Þingvallavatni, norðvestur raunar, og land friðað og gert að þjóðgarði langt upp í Langjökul. Ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að gera í framtíðinni og við þurfum auðvitað að skoða þessa þjóðgarða okkar miklu betur. Við þurfum að stækka þjóðgarðinn fyrir norðaustan, þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Við verðum að ráðast í að færa út mörk hins friðhelga lands á Þingvöllum. Og ég held að það sé mjög vel við hæfi á árinu 2000 að við ráðumst í þá framkvæmd sem umhvn. hefur þrátt fyrir allt treyst sér til að leggja fyrir þetta þing. Ég segi það alveg skýrt og skorinort að sú tillaga gengur allt of skammt að mínu mati. En hún er þó spor fram á við og út af frammíkalli hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að auðvitað styð ég þessa tillögu heils hugar. Hún gengur bara allt of skammt. Og sá hv. jöklafari og þingmaður hefði auðvitað átt að hafa forgöngu um að leggja fram tillögu sem gengur miklu lengra, og ég veit að hugur hans stendur til þess. En við stöndum hins vegar frammi fyrir því að línur skipta stjórn og stjórnarandstöðu og því miður gerist það allt of oft að stjórnarliðið er ekki nægilega stórra sanda að taka heils hugar undir tillögur eins og þessa.

Ég er alveg sannfærður um að þessi tillaga, jafnvel þó að við höfum bara tekið út Vatnajökulsþjóðgarðinn, nýtur yfirburðafylgis meðal fólks, ekki síst vegna þess, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan, að vakning hefur orðið hjá almenningi á þessu sviði. Fólkið vill aukna vernd. Tillagan gengur í þá átt, en það er einungis vegna þess að hún kemur frá áberandi og heldur harðvítugum stjórnarandstæðingi að hún nær ekki lengra en þetta. Þetta er þó spor fram á við og það ber að þakka. Ég styð það auðvitað heils hugar. En ég hefði viljað sjá það stigið miklu lengra til móts við vilja fólksins og lengra inn í framtíðina.