Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:44:41 (4693)

1999-03-10 12:44:41# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:44]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræður um þáltill. og nál. hv. umhvn. Ég deili sannarlega skoðunum með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mörgu leyti og því sem fram kom í máli hans.

Ég vil þó nefna sérstaklega eitt atriði sem ekki hefur verið getið um hér. Við skulum horfa til þess að nú er verið að ganga frá svæðisskipulagi miðhálendisins. Það er verið að festa stjórnsýslumörk sveitarfélaganna inn til miðju hálendisins. Hér er um svo veigamiklar breytingar að ræða að mjög eðlilegt er að menn klári það, bæði með því að festa það mál og skoða hvaða viðbrögð það fær ásamt því skipulagsferli sem vonandi verður staðfest í þessum þingsölum áður en við ljúkum þingstörfum. Það er mjög eðlilegt að menn klári það ferli og hugi síðan að frekari útfærslu á þjóðgörðum í þeim dúr sem fram kemur í upprunalegu þáltill. Ég veit að menn eru ekki að gera lítið úr þeirri þáltill. sem endanlega er flutt hér með nál. umhvn. Þetta er svo sannarlega tímamótagjörningur og ég er í engum vafa um að sú könnun sem þáltill. mælir fyrir um verður gerð, einmitt vegna þeirrar vakningar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði og þeirrar fullu meiningar sem ég veit að flokksfélagar mínir a.m.k. bera í brjósti til miðhálendisins.