Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:46:53 (4694)

1999-03-10 12:46:53# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekkert um góðan vilja hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar í þessu máli. Satt að segja er hann bjargvættur Framsfl. í umhverfismálum og nánast eina andlit þess flokks sem er ásættanlegt í þeim málaflokki. Ég efast ekkert um að hv. þm., sökum þekkingar sinnar á jöklum og miðhálendinu, hefði viljað ganga miklu lengra en gert er í þessari tillögu. Ég er alveg klár á því. Eins og ágætur félagi hans, hv. þm. Guðni Ágústsson, hefur stundum sagt: Þó hann sé sporstuttur þá fer hann hratt yfir.

Herra forseti. Ég tel eigi að síður að einmitt út af því sem hv. þm. var að vísa hér til, þ.e. þeirrar staðreyndar að búið er að skipta miðhálendinu upp milli sveitarfélaga, þá verði erfiðara en ella að hrinda þessu þarfa verki í framkvæmd. Ég held að það hafi verið sagt í þessum sölum að einmitt sú skipting geri það að verkum að 12 sveitarfélög eiga land að Grímsvötnum. Ég man það ekki svo gjörla, veit ekki hvort það er fullkomlega rétt. En það undirstrikar hvað sú breyting torveldar vinnu af þessu tagi.

Ég kom sjálfur að því sem umhvrh. að kanna möguleika á því að búa til eldfjallaþjóðgarð og mætti gríðarlegri andstöðu sveitarfélaga. Ég tel að það verði erfitt að koma þessu máli í endanlega höfn út af því, erfiðara.

Herra forseti. Eigi að síður vil ég, þrátt fyrir þau orð sem ég hef nú haft uppi um þetta og brigslað hv. þm. Ólafi Erni um skort á kjarki, þá er kannski að athuguðu máli ekki rétt af mér að gera það. Ég dreg það því til baka og þakka honum fyrir framgang hans í þessu, en brýni hann jafnframt til dáða því að við tröll en ekki menn er að eiga þar sem er forneskja Framsfl. í þessum málum. Þar eru að vísu góðar undantekningar á en því miður þá er það rangt hjá hv. þm. að innan Framsfl. njóti viðhorf af þessu tagi mikils stuðnings.