Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 12:53:58 (4697)

1999-03-10 12:53:58# 123. lþ. 83.41 fundur 16. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# þál. 15/123, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[12:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vatnsverndin er stórt mál og tengist þessu sannarlega. Það er rétt með fólk t.d. í Skaftafellssýslu, að þar býr verndarsinnað fólk. Sá skilningur hefur víða komið fram og er mjög mikilvægur. En hann er víðar að finna. Og af því að hv. þm. nefndi Skaftfellinga eða þá sem búa nærri Vatnajökli sérstaklega þá vil ég vísa til fleiri sem hafa sýnt skilning á þessu máli, t.d. fulltrúa úr Borgarfirði vestra sem komu á fund umhvn. á dögunum og sáu ástæðu til þess að hafa frumkvæði að því að nefna þessa tillögu á jákvæðan hátt og benda á að þeir hefðu síst á móti því að Langjökull og svæðið vestan hans sem liggur að byggðinni, yrði lýstur þjóðgarður. Það er þessi skilningur og þessi merki sem við þurfum að taka eftir og hlúa jákvætt að í nálgun mála. Hitt er svo auðvitað ljóst að ekki er allt fyrirstöðulaust í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Ég vek að lokum athygli á þeim umsögnum sem komu fram um þessa tillögu. Hér stendur í umsögn skipulagsstjóra í fyrra, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun fagnar þingsályktunartillögunni og telur hana vera í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggur fyrir og rökrétt framhald hennar.``

Alþýðusamband Íslands, sem er ekki oft að álykta í umhverfismálum segir um þetta mál, með leyfi forseta:

,,ASÍ tekur undir þær hugmyndir sem fram koma í tillögunni og leggur áherslu á að þingsályktunartillagan verði samþykkt enda brýnt að mati sambandsins að nú þegar verði brugðið við og tryggt að framtíðarnýting hálendisins verði ákveðin með skipulegum hætti og að sjónarmiða náttúruverndar verði í ríkum mæli gætt við þær ákvarðanir.``

Það er fagnaðarefni þegar slík sjónarmið koma frá stórum almannasamtökum eins og ASÍ.