Alþjóðleg viðskiptafélög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 14:55:20 (4702)

1999-03-10 14:55:20# 123. lþ. 83.22 fundur 414. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# frv. 31/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta frv. um alþjóðleg viðskiptafélög, ekki hvað síst þar sem ekki var samstaða í hv. efh.- og viðskn. um málið. Ég stóð að meirihlutaálti nefndarinnar með fyrirvara. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði grein fyrir minnihlutaáliti frá nefndinni við 2. umr. og ítrekaði röksemdir sínar gegn frv. nú við 3. umr.

Ég vil hins vegar freista þess að draga fram nokkra þætti sem gera það að verkum að ég styð þetta mál þó ég hafi á því fyrirvara. Hér er lagt til að koma á löggjöf um alþjóðleg viðskiptafélög. Félögin væru skráð hér á landi og fengju skattalegar ívilnanir. Meginhugsunin á bak við þetta er að við getum laðað til okkar starfsemi á alþjóðlegum mörkuðum sem ella færi fram hjá hagkerfi okkar.

Þetta er víða gert. Við sjáum í þessu sóknarfæri á vettvangi heimsviðskipta, sérstaklega á sviði sjávarútvegs. Ég bendi á að sjávarútvegurinn er eini atvinnuvegurinn þar sem við mælumst yfirleitt á heimsmælikvarða. Viðskipti okkar með sjávarafurðir eru svona 1,5 milljarðar dollarar af u.þ.b. 50 milljörðum. Umsvif okkar í heimsviðskiptunum eru því 2--3%. Þar hefur orðið mikil aukning á síðustu árum þannig að ef við ætlum að halda hlut okkar í heimsviðskiptum með t.d. sjávarfang, þá verðum við að versla með fisk á heimsmarkaði. Við þurfum að nýta þá markaðsþekkingu og -starfsemi sem við höfum í Vesturheimi.

Þetta frv. getur hjálpað til við þetta. Það getur orðið til þess að við fáum til okkar fyrirtæki sem eru í eigu Íslendinga eða útlendinga sem stunda viðskipti. Við þetta verður ákveðin verðmætasköpun til í hagkerfi okkar auk þess sem íslenskir aðilar geta unnið við þessa umgjörð.

Hins vegar er alveg ljóst að upplegg þessa frv., að veita skattaívilnanir, kallar á mat á því hvort réttlætanlegt sé að fara úr almennum reglum yfir í sérreglur. Í þessu tilfelli tel ég skynsamlegt að láta á það reyna hvort við löðum til okkar viðskipti eða hefjum viðskipti á heimsmarkaði sem verða samfélagi okkar til bóta.

Inn í þetta frv. kom mikilvægt ákvæði, herra forseti, fyrir mitt frumkvæði m.a., um ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:

,,Viðskrh. skal fyrir árslok 2001 leggja fram skýrslu á Alþingi um áhrif laganna á íslenskt efnahagslíf.``

Þannig er alveg augljóst með hvaða viðhorfi meiri hluti efh.- og viðskn. afgreiðir málið. Hér er ætlunin að setja lög og síðan á að kanna áhrifin af þeirri lagasetningu og gefa um það skýrslu á hinu háa Alþingi. Alþingi fær því tækifæri eftir tvö ár til að endurmeta þessi lög og fella þau þá úr gildi eða endurskoða ef talin verður ástæða til.

Ég sé enga ástæðu, herra forseti, til að hafa áhyggjur af þessu frv. Ég er ekki sammála félaga mínum í efh.- og viðskn., hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Við erum oft sammála en ekki alltaf, enda hvor í sínum stjórnmálaflokknum. Ég tel ekkert óeðlilegt við að reyna að búa til lagalega umgjörð um hugmyndafræðina sem ég lýsti hér áðan. Hins vegar er hægt að færa rök gegn því eins og hann gerði en þá verða menn vitaskuld að meta hvor rökin eru meira sannfærandi.

Ég sé enga hættu, herra forseti, í lögfestingu frv. í þessum búningi, sérstaklega þar sem málið kemur aftur til Alþingis sem skýsla viðskrh. Ég á þá von að það leiði til jákvæðrar athafnasemi í viðskiptaumhverfinu og gefi okkur færi á að hasla okkur frekari völl í heimsviðskiptum. Ég held að það geti bæði aukið atvinnumöguleika ungs og vel menntaðs fólks, sem við höfum yfir að ráða. Auk þess gæti þetta gefið okkur tækifæri til að taka þátt í nútímalegum viðskiptum. Heimsviðskipti eru farin að skipta sífellt meira máli í verðmætasköpun einstakra landa. Það er ekkert að því að gera eins og önnur lönd, að búa til sérstakan laga- og skattaramma um tiltekna starfsemi. Að mínu mati er rangt að segja það jafngilda hentifánaútgerð eða þess háttar, sem við þekkjum frá ýmsum löndum þriðja heimsins. Það er ekki sú umgjörð sem skapast með þessu frv.

Endurmatið mun fara fram innan tveggja ára. Ég lít svo á að hér sé um að ræða nútímalega lagasetningu. Hér er verið að búa til ramma um tækifæri sem e.t.v. muni gefast á heimsmarkaði. Hvort við náum að nýta þau mun reynslan leiða í ljós en málið er þess vert. Fyrirvari minn gagnvart málinu hefur fengið góðan hljómgrunn, um að málið komi aftur til Alþingis. Ég hef ekki þær áhyggjur sem minni hluti efh.- og viðskn. lýsti áðan. En eins og oftast verður reynslan að kveða upp úr um áhrif þessara laga.