Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:26:36 (4708)

1999-03-10 15:26:36# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Frsm. meiri hluta (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Útivistarsamtök hafa verið stofnuð í þessu landi sem heita Samtök útivistarfélaga. Í þeim eru 13 samtök og væntanlega tugir þúsunda félagsmanna. Í þessum hópi eru augljóslega og vissulega miklir náttúruverndarsinnar. Þessi samtök starfa nú skipulega þannig að þau geta skipað fulltrúa sinn og komið fram sem talsmenn náttúruverndar og umhverfismála.

Það er alrangt að ætla það að náttúruverndarsjónarmiðum sé ekki fullnægt með því að láta umhverfissamtökin koma til sögunnar í þessu, þó að náttúruverndarsamtök séu ekki mörg hér í landi en þau eru orðin þó nokkur.

Við spurningu hv. þm. eða ábendingu um að aðeins einn fulltrúi kæmi frá höfuðborgarsvæðinu eða frá höfuðborginni er á það að líta að svæðisskipulag miðhálendisins, áður en þetta frv. kemur til sögunnar, tilheyrir sveitarstjórnunum sem land eiga að miðhálendinu. Skipulagslögin fela það í sér. Þannig að við erum hér að svipta þau svæðisskipulagsréttinum, hinum einhliða svæðisskipulagsrétti, og færa það ... (Gripið fram í.) Það segir svo í skipulags- og byggingarlögunum að svæðisskipulag skuli gert af viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarfélögin ná inn til miðju hálendisins, þ.e. þau fara með svæðisskipulagið.

Núna er verið að skerða þennan rétt, nú er verið að hleypa öðrum að. Það er ekki gert á grundvelli mannfjölda eða víðfeðmi lands heldur er það gert með þeim hætti sem hérna er og brjóta blað, að fulltrúar hinna kjördæmanna sem ekki eiga land að, eins og Reykjavík og Reykjanes, fái fulltrúa og það tel ég vera söguleg tímamót.