Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:44:18 (4713)

1999-03-10 15:44:18# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, Frsm. minni hluta MagnM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Frsm. minni hluta umhvn. (Magnús Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að horfa á þessi mál með kalt höfuð og heitt hjarta, eins og jafnaðarmanna er von og vísa.

Það er rétt sem bent hefur verið á í umræðunni að margs konar hagsmunir tengjast hálendi Íslands. Ég hygg að enginn okkar vilji sjá einhliða umræðu um þau mál, hvort þau eru út frá einu sjónarmiði eða öðru. Öll sjónarmið þurfa að komast þar að. Við teljum að þangað til að fyrir liggi gróf áætlun frá hinu þjóðkjörna Alþingi um það hvernig eigi að nýta þetta svæði til framtíðar sé tómt mál að tala um að skipuleggja það í smáatriðum.

Hv. 4. þm. Austurl. veit það eins vel og ég að nú standa fyrir dyrum kosningar. Þó svo að salurinn kunni að vera skipaður fulltrúum einhverra ákveðinna hagsmuna frekar en annarra eins og staðan er í dag, þá er það auðvitað eins og málin lágu fyrir fjórum árum síðan. Við kunnum að sjá allt aðra hagsmuni í fyrirrúmi hér þegar þing kemur saman á ný eftir kosningarnar í vor, og það vonum við í Samfylkingunni auðvitað.