Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:14:29 (4715)

1999-03-10 16:14:29# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði mikið um ferska sýn og löngun fólks til að breyta rétt. Auðvitað viljum við öll breyta rétt. Það er alveg sama hvar við stöndum í flokki.

Hún vitnar mjög gjarnan í bresk hjón sem voru hér á landi og það minnti mig mikið meira á það þegar farskipin komu í gamla daga og útlendingar skoðuðu landið okkar. Auðvitað koma fjölmargir útlendingar til landsins og við hittum fjölmargt fólk sem hefur mismunandi skoðanir á náttúruverndarmálum. Það á við um Íslendinga og það á við um einhver bresk hjón, dönsk hjón eða einhver önnur hjón sem koma hérna. Það var sífellt verið að vitna í það líkt og þar kæmi fram heilagur boðskapur.

Hv. þm. virtist einnig undrandi þegar hún talaði um að sveitarfélög gættu hagsmuna sinna. Hvaða sveitarfélög gera það ekki? Horfum á Kópavogsbæ og höfuðborgina. Auðvitað eru öll sveitarfélög, sama hvaða nafni þau nefnast, alltaf að passa upp á hagsmuni sína. Við sjáum það m.a. ef við erum að hugsa um orkumálin, Reykjavík teygir sig t.d. í mitt kjördæmi til að ná í orku o.fl. Þetta er bara hluti af nútímanum. Hv. þm. þarf því ekki að vera hissa þó að sveitarfélög gæti hagsmuna sinna.

Fjölmargir þéttbýlisbúar kaupa land í dreifbýli og ganga þar mjög vel um, hafa opnar slóðir og allt það. Fjölmargir þéttbýlisbúar eru jafnframt manna grimmastir í að girða leiðir, loka reiðleiðum og smölunarleiðum sem verið hefur hefð á, merkja þar að öll umferð sé bönnuð o.s.frv. Þegar við erum að tala um hagsmunagæslu þá megum við ekki bara horfa í eina átt.