Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:27:17 (4720)

1999-03-10 16:27:17# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þó okkur þingmennina, mig og Hjörleif Guttormsson, greini á um útfærsluatriði þá erum við sammála um meginmálin. Ég geri mér líka grein fyrir því að vandinn er sá að það er næstum óframkvæmanlegt að snúa til baka. Það er næstum óframkvæmanlegt. Hins vegar er hugsanlegt að gera miðhálendið að einu skipulagssvæði og bjarga því sem bjargað verður þó að þjónustuþættir og þessi ákveðnu yfirráð verði hjá sveitarfélögunum, miðað við þá ákvörðun og þau lög sem voru sett í hittiðfyrra. Ég geri mér algjörlega grein fyrir því.

En meira að segja þó við hefðum hér ákveðið þá fjóra þjóðgarða, sem ég var að kalla eftir í dag að ég hefði viljað sjá samstöðu um, þá mundi það ekki einu sinni leysa vandann um samræmda stefnumörkun vegna þess að það vantar svo margt annað. Ég er að leggja áherslu á að ef þessi stefna í ferðaþjónustu, landnýtingu og orku-, samgöngu- og virkjanamálum hefði legið fyrir, eins og hjá siðmenntuðum þjóðum þar sem fólk eins og það sem ég var að vitna í starfar, þá hefði þetta allt legið fyrir áður en farið var að vinna svæðisskipulagið og þá hefði kannski verið hægt að halda utan um þetta af viti þó að ákveðið vald væri hjá sveitarfélögunum.

Vandinn er sá að þannig var ekki unnið. Ég trúi því enn þá að hægt að sé bjarga því sem bjargað verður.