Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:23:53 (4728)

1999-03-10 17:23:53# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:23]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Nú kom ritstjórinn upp í ágætum hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. (Gripið fram í.) Hann fór að blanda saman --- ágæti hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, það er dálítið merkilegt hvað þið verðið ókyrr þegar við erum að ræða þessi mál. Það er oft þannig með fólk sem hefur ekki sérstaklega góða samvisku að jafnvel prúðustu ...

(Forseti (StB): Ekki bein ávörp.)

... jafnvel prúðustu hv. þingmenn fara að gala.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór að blanda hér saman skoðanakönnunum á kjörfylgi. Hv. þm. þarf nú ekki að horfa mjög langt aftur í þeim efnum til þess að rifja upp hvar hann var í skoðanakönnunum, þó ekki væri nema fyrir eins og fáeinum vikum. Við skulum ekki vera að rugla þessu saman. Tíminn á eftir að leiða það í ljós hvort um góða eða vonda lagasetningu er að ræða. Ég tel að hér sé um ágæta viðleitni að ræða í öllu falli.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði líka um stóriðjumál. Ég er ekki frá því að hann hafi eitthvað örlítið öðruvísi viðhorf til þeirra mála núna en hann hafði í síðustu ríkisstjórn þegar hann sat þar. (Gripið fram í.) En eins og ég segi, það er merkilegt að prúðir þingmenn skuli endilega þurfa að gala og góla þegar við erum að reyna að rökstyðja mál okkar í þinginu, sem bendir til þess að samviska þeirra og einlægni, þrátt fyrir mikið tal um nýjar víddir og ný ljós, þau ljós séu kannski ekki eins skær og við mætti búast.