Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:36:24 (4730)

1999-03-10 17:36:24# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hún er mjög mikilvæg, yfirlýsingin frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni um eðli svæðisskipulagsins í þessari umræðu. Hv. þm. segir ljóst að svæðisskipulag miðhálendisins taki yfir aðalskipulag sveitarfélaga. Með því gengur á svigrúm sveitarfélaganna á miðhálendinu til að gera aðalskipulag að eigin vild. Það er nokkuð sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem nú er að ganga úr salnum, verður að lýsa skoðun sinni á síðar í umræðunni. Mér er tjáð að það séu skiptar skoðanir á þessu innan nefndarinnar. Þetta er lykilatriði. Maður spyr sig auðvitað: Þurfa sveitarfélögin sem eiga land inn í miðhálendið nokkuð að vera að hafa fyrir því að gera aðalskipulag ef svæðisskipulagið tekur yfir þau? Þá gera menn eitt svæðisskipulag og það er rétthærra en aðalskipulagið samkvæmt þessu, samkvæmt skoðun hv. þm. Þá er náttúrlega búið að taka mikið vald af sveitarfélögunum. Um það hef ég ekkert nema gott eitt að segja, það er mikilvægt að þessi skilningur liggi fyrir.

Í annan stað. Hv. þm. Kristján Pálsson heldur því fram að meiri hlutinn hafi unnið með fólkinu. Eitt er a.m.k. ljóst, herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur ekki unnið með fólkinu. Hann stendur að frv. og það sem hér liggur fyrir er allt annað en hann sagði að mundi verða niðurstaða umræðunnar þegar málið kom áður fyrir þingið. Hv. þm. Kristján Pálsson, svo ég rifji það upp, sagði að þetta frv. væri gallað vegna þess að það gerði ekki ráð fyrir því að fulltrúar ferðaþjónustu, útivistarsamtaka og náttúruverndar kæmu að málinu. Hvað er það sem hefur breyst síðan? Jú, einn fulltrúi útivistarsamtaka hefur bæst við. Hvar eru fulltrúar náttúruverndar? Hvar eru fulltrúar ferðaþjónustunnar, sem hv. þm. Kristján Pálsson sagði í umræðunum að hann mundi beita sér fyrir að fengju sæti við þetta borð? Þeir fá að éta það sem úti frýs og hv. þm. Kristjáni Pálssyni virðist alveg sama. Hann ber sér á brjóst og segir: Sjáið hvað við höfum gert, við höfum unnið með fólkinu. Við höfum náð þessu. Staðreyndin er sú að við höfum engu náð af því sem hann sagði að mundi berjast fyrir, eða svo til engu.