Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:38:47 (4731)

1999-03-10 17:38:47# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er skelfilegt að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson í þessu máli. Ég sagði í umræðunni að ég vildi að umhverfissamtök, náttúruverndarsamtök og útivistarsamtök kæmu að málinu. Ég sagði að ég teldi ásættanlegt að þau kæmu inn sem áheyrnaraðilar, sem áheyrnarfulltrúar, og það hefur gerst. Þarna er einn fulltrúi með fulla aðild, fulltrúi útivistarsamtaka. Hinir eru með áheyrn. Þeir sitja við borðið með nákvæmlega sama tillögurétt, með nákvæmlega sama málfrelsi og allir hinir fulltrúarnir sem eru með atkvæðisrétt. Ég get ekki ímyndað mér að þér hefði nokkurn tímann dottið það í hug, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að þessi árangur mundi nást. Ég efast stórlega um það.

(Forseti (StB): Ekki bein ávörp.)

Herra forseti. Ég sagði að vísu hv. þm. Össur Skarphéðinsson í framhaldinu, en ég biðst afsökunar, herra forseti. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að skoða betur hvað ég sagði í umræðunni en ég get ekki betur séð en allt það sem ég sagði þá kristallist í því sem hér er komið fram.

Varðandi aðalskipulagstillöguna vil ég benda á að svæðisskipulaginu verður ekki breytt af sveitarstjórnunum eftir að nefndin hefur komist að samkomulagi. Einstök sveitarfélög geta ekki breytt því, þau hafa ekki neitunarvald. Aftur á móti er aðalskipulag nákvæmara en svæðisskipulag. Það getur ýmislegt komið fram, um landnýtingu eða annað sem skiptir sveitarfélögin máli, sem ekki er í svæðisskipulaginu sjálfu. Það er bara nákvæmlega eins og deiliskipulag er nákvæmara en aðalskipulag. Þetta þekkja allir sem starfað hafa í sveitarstjórnum. Ég er ekki að segja að aðalskipulagsvaldið sé tekið af sveitarfélögunum en svæðisskipulagið sjálft er það sterkt að aðalskipulag sveitarfélaganna verður að taka tillit til þess.