Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:41:07 (4732)

1999-03-10 17:41:07# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Maður verður að gera þá lágmarkskröfu til þingmanna sem véla um svo mikilvæg mál, að þeir þekki öll smáatriði málsins. Í málflutningi hv. þm. Kristjáni Pálssyni rekur sig hvað á annars horn. Hv. þm. segir í öðru orðinu að svæðisskipulagið sé æðra en aðalskipulagið og þar með að sveigja þurfi aðalskipulagið að svæðisskipulaginu. Í hinu orðinu, nánast í sömu setningu, segir hann að ekki sé gripið inn í aðalskipulagsvald sveitarfélaga. Þetta, herra forseti, rímar ekki saman. Önnur hvor fullyrðingin er röng. Ég spyr hv. þm.: Hvor er röng?

Auðvitað er rétt hjá hv. þm. að honum finnst skelfilegt að hlusta á það sem ég hef að segja hérna. Hvers vegna? Vegna þess að ég er að rifja upp það sem hv. þm. lofaði hér, lofaði útivistarsamtökum, náttúruverndarsamtökum og aðilum í ferðaþjónustu. Svo kemur hann hingað stoltur af því að hafa náð því fram að ferðaþjónustan sé orðin þriðja flokks aðili. Náttúruverndarsamtökin eru orðin þriðja flokks samtök samkvæmt fyrirkomulaginu. Þau fá, ef ráðherra vill, aðild sem áheyrnarfulltrúar. Þau mega leggja fram hugmyndir. Fá þau að hafa vald til að taka ákvarðanir? Nei, þau fá ekki að taka þátt í ákvörðunum. Síðan kemur hv. þm. eftir að hafa leitað til þessa fólks í prófkjörum og í kosningum og hvað? Hann hrósar sér af því að hafa gert þetta að þriðja flokks fulltrúum, t.d. án sama vægis og ýmsir fulltrúar kjördæmanna.

Hv. þm. sem sagði í umræðunni í fyrra að auðvitað þyrfti að tryggja að sjónarmið fólksins í þéttbýliskjördæmunum fengju að njóta sín. Hvernig gerir hann það? Hann gerir það með því að fallast á að þarna verði einn fulltrúi úr kjördæmi hans sem hefur ekkert meira vægi en fulltrúar landsbyggðarkjördæma með miklu færri kjósendum. Þetta, herra forseti, býður því heim að sjónarmið okkar í þéttbýlinu verða borin fyrir borð. Hvers vegna? Vegna þess að hv. þm. Kristjáni Pálssyni og hans kollegum tókst að koma þessu svo fyrir. Svo hafa þeir sómakennd til að hrósa sér af þessu.