Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:45:42 (4734)

1999-03-10 17:45:42# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurning hvort það hefur tilgang að reyna að eiga skoðanaskipti um þessi stóru mál. Við höfum lagt til að unnið verði sérstakt landskipulag, orðum það auðlinda- og umhverfisskipulag, sem verði ákveðið með þál. frá Alþingi. Þannig yrði til skipulagsyfirvald gagnvart öllum sveitarfélögum um stóru ákvarðanirnar með tilliti til almannahagsmuna. Þar með tæki Alþingi ábyrgð á heildarskipulagi hálendisins. Þetta eru meginatriðin.

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað er það þannig að þegar við erum að tala um svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, og því verður ekki í móti mælt að sveitarfélag sem hefur aðalskipulagsréttinn, hafi ekki verið farið öðruvísi með það með lögum frá Alþingi að eitthvað yfirtaki þann rétt, að ef sveitarfélagið sjálft ákveður að gera eitthvað á þann hátt sem það vill, hvort sem það fellur að svæðisskipulagi frá einhverri samvinnunefnd eða ekki, er það sveitarfélagið sem ræður.

Við skulum taka Svínavatnshrepp sem dæmi. Svínavatnshreppur ákvað að skipuleggja aðstöðu á Hveravöllum. Við skulum ímynda okkur að menn mundu hverfa frá þeirri hugmynd sem þeir eru með og ákveða að setja þar upp glæsilegt hótel, aðstöðu sem mundi almennt ekki vera sátt um. Ef Svínavatnshreppur héldi fast við sína hugmynd telur þá þingmaðurinn að einhver fulltrúi í samvinnunefnd gæti komið og skipað þeim að breyta því? Ef Svínavatnshreppur mundi ákveða að falla frá þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir og ganga út yfir öll mörk velsæmis, gagnvart því sem almenningi finnst trúir þingmaðurinn því að svæðisskipulag og samvinnunefnd gætu tekið á því máli?