Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 17:49:51 (4736)

1999-03-10 17:49:51# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[17:49]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Því miður urðu þetta miklir útúrsnúningar. Ég er nákvæmlega að draga það fram og það var gott að taka dæmi um Svínavatnshrepp vegna þess að það varð talsvert mikil blaða- og fjölmiðlaumfjöllun um það þegar Svínvatnshreppur ákvað þjónustumiðstöð á Hveravöllum á sínum tíma. Ég var að draga það fram ef t.d. sveitarfélagi á þeim stað sem almannahagur lætur sig varða dytti í hug að fara allt aðra leið og byggja eitthvert hótel sem ætti alls ekki heima á slíkum stað og héldi fast við það þá hefur svæðisskipulagið ekki vald gagnvart aðalskipulagi Svínavatnshrepps. Ég fór niður í að tala um eitt sveitarfélag sem var gott dæmi til að draga þetta fram.

Ég hef verið að tala um yfirvald varðandi stóru ákvarðanirnar þannig að allir þyrftu að beygja sig fyrir því. Samvinnunefnd um svæðisskipulag vantaði allar forsendur frá hinu opinbera, það vantaði allar forsendur frá Alþingi. Það hef ég verið að rekja í ræðu minni í dag. Í öllum málaflokkum sem hefur þurft að taka stefnumörkun um áður en gengið er til skipulags. Það er það sem er að. Það er það sem við erum að gagnrýna, gagnrýndum í fyrra og gagnrýndum í dag.