Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 18:58:25 (4741)

1999-03-10 18:58:25# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[18:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra rakti ferlið eins og hann telur að það liggi fyrir. En hann svaraði samt ekki spurningunni: Hvað gerist ef aðalskipulag einhvers sveitarfélags er samþykkt af sveitarstjórn þess sveitarfélags í andstöðu við það svæðisskipulag sem fyrir liggur? Hvað á þá að gera til þess að skera úr þeim ágreiningi sem er milli aðalskipulags sveitarfélagsins og svæðisskipulagsins? Ég er þá auðvitað að tala um að þetta sé búið að fara í gegnum Skipulagsstofnun sem hefur vísað því aftur til samvinnunefndar. Hún á að gæta samræmis og hún reynir auðvitað að beita fortölum. Hefur hún eitthvert vald umfram fortölur?