Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:36:50 (4750)

1999-03-10 19:36:50# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að verða vitni að því að ekki hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tekið upp alla sína tjaldhæla. Þeir tjaldhælar sem hafa fest hann sem hælbít á Alþfl. hafa ekkert losnað.

Það sem ég sagði var einfaldlega þetta: Áður en skipulagstillögur eru unnar þarf umráðaaðili þess landsvæðis sem þar á hlut að máli að vera búinn að taka ákvörðun um hvernig hann hyggst nýta það landsvæði sem á að skipuleggja, m.a. hvort eða hvort ekki eigi að leggja hálendisvegi eins og talað hefur verið um í mörg ár, m.a. af kjósendum hv. þm. sjálfs. Ríkisvaldið þarf líka að taka ákvörðun um, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, hvar eigi að hafa þjóðgarða, hvar eigi að vernda land, þar á meðal þá þjóðgarða sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur talað um að þurfi að taka ákvörðun um.

Ég leyfði mér aðeins að segja að umráðaaðili hálendisins, sem er ríkisvaldið, verður að hafa tekið slíkar ákvarðanir, annaðhvort með eða á móti framkvæmdaáformum, áður en skipulag er unnið. Það er engin yfirlýsing um einhverja virkjanagleði. Það er engin yfirlýsing um að að leggja eigi hraðbrautir þvers og kruss á hálendinu. Það er ekki heldur yfirlýsing um að gera eigi allt hálendið að þjóðgarði. Það er bara einföld skynsemi um hvernig rétt er að halda á málum af hálfu þess sem hefur forræði hálendisins með höndum.

Ég ítreka að það er þó gott að vita að einhverjir af tjaldhælum hv. þm. hanga fastir á sínum stað.