Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:38:59 (4751)

1999-03-10 19:38:59# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. virðist gleyma eða a.m.k. hafna því að skipulag sé forsögn um nýtingu. Eftir að skipulagsákvarðanir hafa verið teknar þá er eigandi, hver sem hann er, hvort sem það er ríki eða annar, bundinn af því skipulagi þar til því hefur verið breytt. Það er hið mikilvæga í málinu.

Það er alger misskilningur að ríkisvaldið geti gengið gegn skipulagsákvörðunum eftir því sem því þóknast sem hugsanlegur umráðaaðili lands, t.d. þjóðlendu, og það er það þýðingarmikla. Til þessa vill hv. þm. ekki taka tillit. Það virðist vera þess vegna sem hv. þm. vill kasta út í hafsauga þeirri skipulagstillögu sem er fullgerð af svæðisskipulagsnefnd um skipulag miðhálendisins sem sett var á laggirnar fyrir frumkvæði umhvrh. Alþfl. á sínum tíma. Það er það sem hangir á spýtunni.

Ég harma það, virðulegur forseti, að þessi málflutningur skuli hér uppi hafður og að talsmenn Samfylkingarinnar í umræðunni skuli ætla sér að brjóta niður þá vinnu sem þó hefur farið fram og að mörgu leyti er jákvæð og liggur fyrir í skipulagstillögu sem hefur lögum samkvæmt fengið umsögn og bíður staðfestingar.

Síðan liggur það fyrir samkvæmt þeim brtt. frá meiri hluta umhvn. sem hér hafa verið gerðar að ný svæðisskipulagsnefnd eða samvinnunefnd miðhálendis, eins og hún er kölluð, getur þegar að loknum alþingiskosningum að vori tekið ákvörðun um að taka þetta svæðisskipulag til endurskoðunar. Hugmyndin í frv. ríkisstjórnarinnar um að sýna (Forseti hringir.) núverandi nefnd tillöguna þannig að hún gæti flett henni hafði ekkert praktískt gildi í raun.