Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 19:41:28 (4752)

1999-03-10 19:41:28# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[19:41]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er hv. þm. tekinn til við uppáhaldsiðju sína, þ.e. að deila um það hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Það er hann búinn að gera alloft á Alþingi. Umræðuefni hans er það að fyrst eigi að koma forsögn skipulags áður en sveitarstjórnir taka ákvörðun um framkvæmd.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að fyrst eigi að koma almenn forsögn eiganda landsins um hvernig eigi að nýta það og síðan eigi að skipuleggja landið í samræmi við þá almennu forsögn. Það er almenn regla í skipulagsvinnu. Það er hin eðlilega og rétta röð. En ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að deila við hv. þm. um uppáhaldsdeiluefni hans, hvort komi á undan, eggið eða hænan.

En hitt hefði einhvern tíma þótt tíðindi, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, e.t.v. undir lok þingferils síns --- ég vil ekkert fullyrða um það, kannski fer hv. þm. í framboð á ný --- skuli í umhverfismálum ganga í lið með Framsfl. og Sjálfstfl.