Umræður um sjávarútvegsmál

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 20:43:23 (4757)

1999-03-10 20:43:23# 123. lþ. 84.92 fundur 350#B umræður um sjávarútvegsmál# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[20:43]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Er ekki hægt að fá svar við þeirri einföldu spurningu, frá hæstv. sitjandi sjútvrh., hvort hann er reiðubúinn að ræða við Alþingi um stöðu strandveiðiflotans áður en þessu þingi lýkur? Við stjórnarandstæðingar erum reiðubúnir, þó skammur tími sé eftir af þinginu, til að gera allt sem við getum til að leysa málin. Þau mál verða ekki leyst með því að taka aðeins á vandamálum lítils hluta þeirra sem um sárt eiga að binda. Strandveiðiflotinn allur og fiskverkafólk um allt land bíður eftir því. Hefur ríkisstjórn Íslands ekkert við þetta fólk að segja? Hefur hæstv. sjútvrh. ekkert við þetta fólk að segja á síðustu dögum Alþingis, fólkið sem er tugum saman að missa vinnu sína í frystihúsum víðs vegar um land og vertíðarflotann sem er nú nærri aflaheimildalaus?

Ég ítreka spurningu mína, virðulegi forseti: Er ekki hægt að fá svar hjá hæstv. sjútvrh. við þeirri beiðni að efnt verði til stuttrar utandagskrárumræðu um vanda fiskiskipaflotans og landvinnslunnar áður en þing fer heim og áður en við göngum til kosninga?