Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:02:36 (4763)

1999-03-10 21:02:36# 123. lþ. 84.12 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:02]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég vil, nú við 3. umr. málsins, mæla fyrir brtt. sem ég flyt við þetta mál. Samkvæmt því orðast ákvæði til bráðabirgða þannig að margföldunarstuðlar sem er í 2. mgr. 9. gr. og 5. mgr. 11. gr. hækki örlítið, og að þetta ákvæði gildi til 1. júlí árið 2001. Í þessu felst að það sólarlagsákvæði sem áður var samþykkt í bráðabirgðaákvæði dettur upp fyrir og lögin verða því ótímabundin. Jafnframt minnkar sú skerðing á lífeyrisréttindum sem fyrirhuguð var, þ.e. hún verður minni á þeim tíma sem þetta bráðabirgðaákvæði gildir.

Þess skal getið að þessi tillaga er flutt í samráði við þau samtök sem standa að sjóðnum. Borist hafa undirskriftir frá fimm stjórnarmönnum varðandi þetta mál. Enn fremur átti ég ásamt fleiri hv. þm. fund með forsvarsmönnum Farmanna- og fiskimannasambandsins í dag, auk stjórnarmanns LÍÚ í sjóðnum og stjórnarmanns Sjómannasambandsins. Þessi tillaga er flutt með hliðsjón af þeim fundi.

Ég vona að þingheimur geti samþykkt þetta. Gert er ráð fyrir því að lífeyrismál sjómanna muni koma upp í næstu kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna. Ég hygg að það muni vera sameiginlegt áhugamál þeirra sem að sjóðnum standa að ganga þannig frá sjóðnum að hann geti staðið myndarlega að lífeyrismálum sjómanna í framtíðinni.