Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:05:59 (4765)

1999-03-10 21:05:59# 123. lþ. 84.12 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:05]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Um frv. sem við erum að ræða hér í lokaumræðu um Lífeyrissjóð sjómanna voru mjög skiptar skoðanir og mikill ágreiningur við 1. umr. málsins. Við 2. umr. kom fram að málið var afgreitt úr efh.- og viðskn. af meiri hluta nefndarinnar. Stjórnarandstaðan tók ekki þátt í þeirri afgreiðslu úr nefndinni og taldi ekki rétt að málum staðið. Minni hlutinn taldi að betur hefði þurft að tryggja hag sjómanna í Lífeyrissjóði sjómanna.

Við 2. umr. kynnti hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, útlínur að yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. mundi gefa hér við 3. umr. Hæstv. fjmrh. gaf yfirlýsingu um þetta efni rétt áðan úr ræðustól. Þar komu m.a. fram vandkvæði sem tengjast sjómönnum yfir 60 ára aldri, forsöguna þekkja menn ágætlega hér í þingsölum, og að þau mál yrðu áfram til skoðunar í samráði við viðkomandi aðila, til að takmarka röskun þeirra í sambandi við sjóðinn. Málið snýst um að samkvæmt lögum þarf að skerða greiðslur úr sjóðnum.

Þessi yfirlýsing, sem fjmrh. gaf um þetta efni, er mjög mikilvæg. Ég vil geta þess sérstaklega hér að sá stjórnarandstæðinga sem hafði forgöngu um málið af okkar hálfu var hv. fyrrv. alþingismaður, Svavar Gestsson. Þetta var síðasta verk hans á Alþingi að knýja fram þessar yfirlýsingar og betrumbætur á Lífeyrissjóði sjómanna. Ég tel ánægjulegt að það skuli, nokkrum dögum eftir að hann hefur horfið hér úr þingsölum, vera hægt að vitna til góðra starfa hans um þetta efni.

Hv. formaður efh.- og viðskn. gat einnig um frekari brtt. sem ganga allar í átt til þess sem við stjórnarandstæðingar styðjum, þ.e. sólarlagsákvæði er tekið út og með endurreikningi verður um minni skerðingu á sjóðnum að ræða.

Öll þessi atriði, og þá sérstaklega yfirlýsing fjmrh., hafa gert það að verkum að stjórnarandstaðan hefur fallið frá hinni hatrömmu andstöðu sem við boðuðum við þetta frv. við 1. umr. og héldum áfram í nefndarstarfinu. Af okkar hálfu verður málið væntanlega lögfest með atkvæðum stjórnarliða. Við teljum að tekist hafi að gera þær betrumbætur í tengslum við löggjöfina og með þeirri yfirlýsingu sem fjmrh. gaf sem hægt var að fá fram um þetta mál. Ég vona að málefni sjóðsins eigi eftir að fá farsæla umfjöllun þegar fram líða stundir.