Lífeyrissjóður sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:15:18 (4768)

1999-03-10 21:15:18# 123. lþ. 84.12 fundur 324. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (heildarlög) frv. 45/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði nú lofað að tefja ekki frekar framgöngu þessa máls en neyðist eiginlega til að brjóta nýgefið loforð. En svar mitt skal vera stutt. Þetta er ekki svaraverður þvættingur hjá hv. þm. Ég var ekki að mæla því bót að lífeyrisréttindi manna hefðu skerst í litlum sjóðum sem hefðu farið illa. Það fólst ekkert slíkt í mínu máli.

Það sem ég var að benda á var að vegna geysilega hárrar slysatíðni í sjómennskustörfum eru þau réttindi sem lífeyrissjóðurinn tryggir mönnum til örorkubóta augljóslega mjög mikilvæg í augum þeirrar stéttar, það liggur í hlutarins eðli. Eða heldur hv. þm. Pétur Blöndal að sjómenn viti ekki hvaða áhættu þeir taka í starfi sínu? Það gera þeir. Og ætli það sé þá ekki þannig að það skipti einhverju máli fyrir þá og fjölskyldur þeirra að hafa þó það á bak við sig að ef þeir þurfa kannski seinni hluta ævinnar að búa við skerta starfsorku vegna slysa þá njóti þeir sæmilegra örorkubóta?

Það var þetta sem ég var að segja, hv. þm., og ekkert annað. Og ég frábið mér skæting af því tagi sem hér kom fram.