Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:18:33 (4769)

1999-03-10 21:18:33# 123. lþ. 84.13 fundur 252. mál: #A happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna# (peningavinningar) frv., Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:18]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1096 frá hv. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 16/1973, um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og frv. til laga um breytingu á lögum nr. 18/1959, um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga.

Nefndin hefur fjallað um málin.

Í frumvörpunum er lagt til að umræddum happdrættum verði heimilt að reka peningahappdrætti og með því verði staða þeirra bætt.

Happdrættismarkaðurinn hefur þróast ört á undanförnum árum. Happdrættum hefur fjölgað og samkeppni milli þeirra aukist. Þetta hefur m.a. leitt til þess að happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Sambands íslenskra berklasjúklinga hafa þurft að horfa upp á samdrátt ár frá ári.

Nefndin hefur skilning á vanda umræddra happdrætta og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvörpunum, en þar sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á peningahappdrætti samkvæmt lögum nr. 13/1973, með síðari breytingum, telur nefndin ekki unnt að leggja til að þau verði samþykkt. Nefndin telur eðlilegt að happdrættismarkaðurinn í heild verði tekinn til skoðunar og að sett verði ein heildarlög um happdrætti og leggur til að málunum verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Kristján Pálsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Svanhildur Árnadóttir, Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín Halldórsdóttir.