Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:29:23 (4774)

1999-03-10 21:29:23# 123. lþ. 84.19 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál. 25/123, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:29]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá menntmn. um tillögu til þál. um að íslenska táknmálið verði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra.

Nefndin hefur fjallað um málið og í tillögunni er lagt til að menntamálaráðherra verði falið að undirbúa frumvarp til laga um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi.

Eins og segir í greinargerð með tillögunni er íslenskan ekki viðurkennt móðurmál Íslendinga í lögum eða stjórnarskránni enda gerist þess ekki þörf, hún er móðurmál Íslendinga og enginn dregur það í efa. Yrði það lögfest að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi mundi það hafa víðtæk áhrif. Slíka lagasetningu þyrfti að undirbúa af kostgæfni til að hún skilaði tilætluðum árangri. Af þeirri ástæðu telur nefndin ekki rétt að tillagan verði samþykkt óbreytt. Menntamálanefnd telur mikilvægt að málið verði skoðað vel og gerð athugun á hvort rétt sé að festa það í lög að táknmálið verði móðurmál heyrnarlausra eða hvort hægt sé að tryggja réttarstöðu heyrnarlausra á annan hátt.

Á undanförnum árum hefur ýmislegt áunnist í málefnum heyrnarlausra. Má sem dæmi nefna Samskiptamiðstöðina og kennslu í táknmálstúlkun í Háskóla Íslands.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo: Alþingi ályktar að menntamálaráðherra verði falið að láta gera athugun á réttarstöðu heyrnarlausra hér á landi í samanburði við réttarstöðu heyrnarlausra í nágrannalöndunum með það að markmiði að tryggja sem best stöðu íslenska táknmálsins.

Menntmn. er einróma í afstöðu sinni.