Almannatryggingar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:34:04 (4776)

1999-03-10 21:34:04# 123. lþ. 84.20 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv. 62/1999, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:34]

Frsm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar.

Nefndin fjallaði ítarlega um þetta mál og vegna þess að málið var seint fram komið var farin sú leið að í stað þess að senda það út til mjög margra aðila sem kynnu að hafa skoðanir á því og málið varðaði, þá fengum við til okkar fulltrúa þeirra. Okkur bárust einungis skriflegar umsóknir frá Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagi Íslands, en bæði félögin óskuðu eftir því að senda inn skriflegar umsagnir.

Frv. gerir ráð fyrir því að forsendur við ákvörðun örorku byggist alfarið á læknisfræðilegum staðli og að allir sem eru metnir a.m.k. 75% öryrkjar njóti tiltekinna réttinda. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því í frv. að miklu meiri áhersla verði lögð á endurhæfingu en áður sem forsendu fyrir örorkumati.

Samstaða var í nefndinni um þá skoðun að þær breytingar sem felast í frv. séu mjög til bóta. En það er ljóst, og það var sameiginleg skoðun nefndarinnar, að með því að gera frv. að lögum verður örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins algerlega óháð tekjum og tekjumöguleikum öryrkja. Þetta er afar mikilvægt, herra forseti.

Í viðræðum okkar við fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri kom fram að tryggingalæknir mun með skömmum fyrirvara geta metið þörf sjúklings fyrir endurhæfingu og þannig úrskurðað honum mjög fyrirvaralítið endurhæfingarlífeyri. Ef menn utan af landi þurfa að mæta hjá tryggingalækni vegna þessa mun stofnunin greiða ferðakostnað þeirra líkt og gildir t.d. um slys. Ef þeir af einhverjum ástæðum komast ekki og þurfa að bíða eftir að tryggingalæknir komi í þeirra byggðarlag gætu viðkomandi sömuleiðis fengið úrskurðaðan endurhæfingarlífeyri eða örorkulífeyri til bráðabirgða á grundvelli læknisvottorðs, án þess þó að í því fælist nokkur viðurkenning á slíkum rétti af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta, herra forseti, kom fram í samræðum nefndarinnar og var gagnkvæmur skilningur hennar og fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins. Það kom líka fram að um leið og tryggingalæknir hefur metið þörf einstaklings fyrir endurhæfingu getur viðkomandi einstaklingur átt rétt á endurhæfingarlífeyri skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 118/1993. Nefndin vill þó vekja athygli á því að með hliðsjón af markmiði frv. um meiri áherslu á endurhæfingu þarf að endurskoða ákvæði laganna um endurhæfingarlífeyri en samkvæmt þeim er slíkur lífeyrir aldrei greiddur lengur en í átján mánuði. Telur nefndin brýnt að ákvæði um tímalengd endurhæfingarlífeyris verði endurskoðuð fljótlega eftir að lögin eru komin til framkvæmda svo að ljóst megi vera að þau nái tilgangi sínum.

Nefndin leggur líka mikla áherslu á að Tryggingastofnun ríkisins hafi þegar að frv. samþykktu samband við þá einstaklinga sem hafa lækkað í örorkumati vegna vinnu og kynni þeim rétt þeirra til að fá örorkumatið endurskoðað samkvæmt reglum frv.

Það kom fram í samræðum okkar við sérfræðinga Tryggingastofnunar ríkisins að þetta er auðvelt að gera og að þeir hafa þegar hafið undirbúning að því að hafa samband við þessa lífeyrisþega.

Herra forseti. Nefndin varð sammála um að mæla með því að frv. yrði samþykkt með breytingum sem við leggjum til í sérstöku þskj. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. september 1999 enda þarfnast reglur um breyttar forsendur örorkumats talsverðs undirbúnings og þær þarfnast líka verulegrar kynningar af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Þessi ósk kom fram af hálfu sérfræðinga stofnunarinnar og við töldum að það væri sjálfsagt og í þágu lífeyrisþega og þeirra sem njóta þessa frv. að við henni yrði orðið.

Í öðru lagi leggjum við til breytingu á ákvæði sem er til bráðabirgða. Þessari breytingu er ætlað að skýra ákvæðið nánar. Með henni eru tekin af tvímæli um að nýju reglurnar gildi um þá sem metnir eru öryrkjar í fyrsta skipti eftir að lögin taka gildi en hrófli hins vegar ekki við stöðu hinna sem hafa verið metnir í gildistíð eldri laga. Þó geta þeir sjálfir óskað sérstaklega eftir því að til endurmats komi. Þannig mundu þeir sem fengið hafa metna meiri en 75% örorku samkvæmt gömlu reglunum halda því hafi forsendur upphaflegs örorkumats ekki breyst, en þeir sem metnir eru með minni örorku, þ.e. 65%, 50% eða minni en 50%, geta samkvæmt nýju reglunum og samkvæmt þessari breytingu sótt um endurmat.

Herra forseti. Ég get þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi þingflokks óháðra í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Undir nál. ritar sá sem hér stendur auk hv. þingmanna Láru Margrétar Ragnarsdóttur, Sivjar Friðleifsdóttur, Guðmundar Hallvarðssonar, Bryndísar Hlöðversdóttur, Guðna Ágústssonar og Sigríðar Önnu Þórðardóttur.