Almannatryggingar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:02:01 (4780)

1999-03-10 22:02:01# 123. lþ. 84.20 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv. 62/1999, GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:02]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að fara að leiðrétta hv. þm. sem hér talaði áðan, ég veit að hún er kunnug þessum málum. En ég vil aðeins ítreka að þetta hefur í raun og veru engin áhrif á greiðslur hvort sem fólk er metið eftir hinni nýju aðferð eða hinni gömlu. Sé það 75% öryrkjar þá fara tekjur að skerðast eftir alveg sömu reglum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að frekar er breytt um örorkumat ef tekjur aukast samkvæmt gamla matinu. En í rauninni hefur þetta engin áhrif á greiðslur nema matið breytist í verulegum mæli.

Ég vil ítreka þann ótta minn að örorkan verði því aðeins metin réttlátlega ef hún er mjög sýnileg. Ég er hrædd við allt sem erfitt er að þreifa á varðandi sjúkdóma. Fólk gæti orðið illa úti í því sambandi. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér að konur yrðu hugsanlega afgreiddar með því að þær gætu unnið heimilisstörf og þá þyrfti litlar áhyggjur að hafa af þeim. Matið yrði með öðrum orðum kannski ekki alltaf sanngjarnt.

En ég skal ekki orðlengja þetta. Mér er ljóst að ég get ekki ætlast til þess að hafa nein áhrif á þetta mál þar sem ég kom að því fyrir tveimur dögum og það komið á afgreiðslustig. En með kveðju til vina minna í Öryrkjabandalaginu þá vil ég að þeir viti að ég er ekki jafnáhugasöm um þessa breytingu og þeir. Ég vil þess vegna láta skrá það að ég er ekki grunlaus um að þeir eigi eftir að sjá eftir því að hafa barist fyrir þessari breytingu.