Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:42:45 (4793)

1999-03-10 22:42:45# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:42]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega út hvað þetta kostar. Þetta mál hefur margoft komið til umræðu í þinginu og væntanlega eru til einhverjir útreikningar um það. Samt sem áður, herra forseti, tel ég þetta það mikilvægt réttlætismál að það sé prinsippmál að þessi laun hækki í samræmi launaþróun. Í mínum huga er þetta ekki spurning um kostnað, þetta er réttlætismál og það má ekki hafa þessa peninga af fólki. Það er rangt. Það er mannréttindabrot að hafa þessa peninga af fólki.

Varðandi þá hópa sem við teljum rétt að taka inn í tryggingaráð þá er það rétt að þar inn eru ekki teknir allir hagsmunahópar og allir skjólstæðingar Tryggingastofnunar. Það væri einungis til að æra óstöðugan og við erum ekki að leggja það til. Við leggjum til að þeir hópar sem hafa langtímaskjólstæðinga í sínum röðum, þ.e. fólk sem er algjörlega háð þessum greiðslum til langframa, að fulltrúar þeirra séu þarna inni.

Eflaust mætti taka fleiri inn í ráðið til að tryggja að allir ættu þar sína fulltrúa. Samkvæmt okkar tillögu mun þetta ná yfir ansi breiðan hóp og teljum rétt að fulltrúar þeirra fái aðild að tryggingaráði. Þeir hafa margsinnis lagt fram góð og gild rök fyrir því af hverju þeir ættu að eiga þar fulltrúa.

Hvað varðar loftslagsmeðferðina þá er þar um að ræða læknisfræðilegt mat á því að þessi meðferð dugi. Ég heyrði hv. þm. ekki svara spurningu minni um hvað hefði breyst svona mikið árin 1995 og 1996. Fulltrúar þessara samtaka segja okkur að í raun þurfi margir á loftslagsmeðferð að halda en hafi ekki fengið hana. Hvað gerði það að verkum að þetta breytist svona skyndilega? Eitthvað hlýtur það að vera. Er það Bláa lónið? --- Herra forseti. Ég bið um að þingmaðurinn hlýði á mál mitt vegna þess að ég er að leggja fyrir hana fyrirspurn. --- Þó meðferð Bláa lónsins komi ekki í staðinn fyrir loftslagsmeðferðina þá er virðist þó vera svo árin 1995 og 1996, vegna þess að einungis örfáir sjúklingar hafa fengið loftslagsmeðferð síðan þá, á móti u.þ.b. 40 á ári sem fengu þessa meðferð fram að því.