Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:10:38 (4799)

1999-03-10 23:10:38# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:10]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að það er örugglega sparnaður í einhverjum tilvikum að senda psoriasissjúklinga út vegna minni lyfjakostnaðar og minni sjúkrahúsvistar. En það er rangt sem hv. þm. hélt fram, og vísar til athugasemda um 14. gr., að með því að fella út þetta sérákvæði verði psoriasissjúklingar ekki sendir í loftslagsmeðferð. Það er einungis verið að fella út sérákvæði. Og það stendur hér:

,,Ákvæði 2. mgr. 33. gr. laganna er fellt brott þar sem eftir tilkomu Bláa lónsins er ekki þörf á sérákvæðum um læknishjálp psoriasissjúklinga á meðferðarstofnunum erlendis. Um hana gilda almennar reglur almannatryggingalaga um læknishjálp erlendis.``

Þarna hefði verið betra að staðið hefði meira í athugasemdunum í greinargerðinni og vísað í 35. gr. Það hefði verið meira upplýsandi fyrir okkur en setja þetta svona fram, vegna þess að ,,almennar reglur`` þýðir siglinganefndin sem er í 35. gr.

Samtök psoriasissjúklinga hafa líka fallið ofan í þennan pytt --- og það væri ágætt ef hv. þm. Ögmundur Jónasson hlustaði einnig á mig --- og segja eftirfarandi í bréfi sem kom til heilbr.- og trn., með leyfi forseta:

,,Engin rök búa þar að baki og fullyrðingar í greinargerð um að Bláa lónið geti leyst loftslagsmeðferð af hólmi eru órökstuddar og algjörlega óraunhæft að halda slíku fram.``

Þessu er bara alls ekki haldið fram í greinargerðinni, alls ekki. Það er eðlilegt að psoriasissjúklingar fari í loftslagsmeðferðir en þá á að gera það á faglegum grunni í siglinganefnd þar sem læknarnir sitja og fá álit húðsjúkdómalækna og leita oft til annars húðsjúkdómalæknis. Hvað réttlætir það, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að psoriasissjúklingar séu með sérákvæði þannig að pólitískt skipað tryggingaráð eigi að fjalla um ferðir þeirra en ekki faglega skipuð siglinganefnd?