Landshlutabundin skógræktarverkefni

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:32:04 (4806)

1999-03-10 23:32:04# 123. lþ. 84.23 fundur 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv. 56/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. landbn. og stend að því nál. sem hv. þm. Guðni Ágústsson var að gera hér grein fyrir. Hér er um að ræða mjög merkilegt mál, þ.e. lagasetning um landshlutabundin skógræktarverkefni, en gerð er tillaga um almenna löggjöf á þessu sviði. Áður höfum við afgreitt á hinu háa Alþingi tvenn lög um þetta efni, lög um Héraðsskóga og nú síðast lög um Suðurlandsskóga.

Herra forseti. Það er greinilegt að mikill vilji er hjá bændum þessa lands og frjálsum félagasamtökum og stjórnmálamönnum að efla skógrækt í landinu og er það hið besta mál og skylda okkar alþingismanna að búa um þá starfsemi góða löggjöf og tryggja að skipulag sé sem best. Ég tel að það sé gert í þessu frv. sem er hér til 2. umr. Hv. landbn. fór vandlega yfir málið og leitaði ráða ráða hjá fjölmörgum einstaklingum eins og kom fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar.

Frv. sjálft gerir ráð fyrir tiltekinni umgjörð um málið sem ég ætla ekki að lýsa hér vegna þess að það var gert við 1. umr. En nokkrar brtt. eru gerðar á frv. sem eru mjög mikilvægar að mati okkar í landbn. Við lengjum tímann við stjórnun verkefna. Það er eðlilegt við nánari athugun að menn séu skipaðir til lengri tíma, fjögurra ára, enda eru fjögur ár ekki langur tími í skógrækt, en þess má geta að landshlutaáætlanirnar okkar eiga að ná til 40 ára. Hér er því hugsað til langs tíma og hugsað stórt.

Mjög mikilvæg breyting er gerð í stjórn landshlutaverkefnanna. Stjórnamönnum fjölgar um einn og hann er skipaður af skógræktarfélögunum á viðkomandi svæði. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði. Þarna eru hin frjálsu félagasamtök tengd inn í þessa vinnu og ég er þess fullviss, herra forseti, að samstarfið milli aðila, hvort sem þeir koma frá Skógrækt ríkisins, skógarbændum, skógræktarfélögum eða landbrh., þ.e. milli þeirra aðila sem skipaðir verða í verkefnisstjórn, verði hið besta.

Þó er nú e.t.v. mikilvægasta ákvæðið sem bætist við frv. samkvæmt brtt. landbn. það að fara skuli fram mat á umhverfisáhrifum landshlutaáætlunar áður en stofnað er til landhlutaverkefna. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði að mati landbn. og okkar stjórnarandstæðinga sérstaklega. Þetta var ágreiningsefni á sínum tíma þegar löggjöfin um Suðurlandsskóga var afgreidd. Þess ber hins vegar að geta að í bráðabirgðaákvæðinu segir einnig að þessi skylda að láta fara fram umhverfismat gildi þar til endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum er lokið. Sú vinna er í gangi og er komin nokkuð langt. Það liggur fyrir hálfbúið frv. um það efni og ég er þess fullviss að löggjöf um mat á umhverfisáhrifum verði lögfest á næsta þingi án tillits til þess hvaða ríkisstjórn tekur við. Hér er því vísað til lagasetningar sem núna er í farvatninu og mjög líklegt að menn muni halda áfram þeirri endurskoðunarvinnu sem hefur verið unnin í ráðuneytinu.

Það er hins vegar mjög mikilvægur þáttur að okkar mati að umhverfismatið fari fram og þar með tryggt samræmi við bæði umhverfi og samtök og skipulag á hverju svæði. Vitaskuld er einna mikilvægast við þessa lagasetningu að um hana ríki sátt og það að nást skyldi sátt innan landbn. um þetta mál á hinu háa Alþingi er mjög gott. Ég fagna því sérstaklega.

Landbn. hefur afgreitt tvo mikilvæga málaflokka núna á síðustu dögum. Hinn var um búnaðarfræðslu. Við bárum einnig gæfu til að standa sameiginlega að breytingartillögum og afgreiðslu málsins þar sem meiri hlutinn tók fullt tillit til sjónarmiða okkar í minni hlutanum. Þar urðu góð skoðanaskipti. Það sama átti sér stað um landshlutverkefnin sem hér eru til umræðu því að meiri hlutinn sýndi sanngirni í mati á röksemdum okkar stjórnarandstæðinga. Niðurstaðan er sameiginlegt nál., sameiginlegar brtt., og ég er þess fullviss að lögfesting um landshlutabundin skógræktarverkefni eigi eftir að reynast landinu farsæl og verða lyftistöng ekki hvað síst hinum dreifðu byggðum landsins.