Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:40:53 (4808)

1999-03-10 23:40:53# 123. lþ. 84.31 fundur 607. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (aðsetur) frv. 53/1999, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:40]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hv. þm. Guðni Ágústsson gerði hér grein fyrir er flutt af landbn. og þar með af mér sem á sæti í landbn. Málið á sér nokkurn aðdraganda, þann að hér í þinginu hefur verið til umfjöllunar stjfrv. um almenna heimild til ráðherra að flytja ríkisstofnanir út á land. Pólitískur ágreiningur hefur verið um það frv. bæði þegar það var fyrst lagt fram fyrir áramót og svo aftur í þinginu. Það hefur orðið niðurstaða núna undir lok þessa þings að ekki er knúið á um það frv. Það hefur verið tekið út af dagskrá þessa fundar. Það þýðir að þessi almenna heimild sem við stjórnarandstæðingar erum reyndar mjög á móti verður ekki lögfest. En nauðsynlegt er að skoða málefni lánasjóðsins sérstaklega vegna þess að flutningur er þegar hafinn, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gerði grein fyrir.

Við í stjórnarandstöðunni erum fylgjandi því að ríkisstofnanir verði fluttar út á land. Við höfum hins vegar verið þeirrar skoðunar að slíkt eigi að koma fyrir Alþingi hverju sinni og að sækja eigi um heimildir um það efni. Það getur að vísu gilt annað um nýjar stofnanir. Við teljum því að hér sé um eðlileg vinnubrögð að ræða og ekki mun standa á okkur að greiða þessu máli leið í gegnum þingið þannig að það verði að lögum annaðhvort í nótt eða í fyrramálið, líklega í fyrramálið.

Uppi voru spurningar um hvert sjóðurinn ætti að fara eins og menn þekkja úr fjölmiðlum. Ég ætla ekki að leggja neitt mat á Húsavík eða aðra staði sem mig minnir að hafi verið nefndir. Niðurstaða þeirrar umræðu milli starfsmanna stjórnar og landbrh. er að sjóðurinn fari á Selfoss. Ég held að það sé mjög góð niðurstaða, hann sé þar vel kominn og það verður unnið að þeim verkefnum sem honum er falið samkvæmt lögum. Því tel ég að frv. sé mjög eðlilegur framgangsmáti gagnvart þessari löggjöf, þ.e. að það er borið undir Alþingi með frv. hvort sjóðurinn skuli fluttur á tiltekinn stað, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessari aðferðafræði fylgjum við í stjórnarandstöðunni. Við styðjum málið og munum leggja því það lið sem við getum til að það geti orðið að lögum sem fyrst.