Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:45:41 (4810)

1999-03-10 23:45:41# 123. lþ. 84.24 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, Frsm. meiri hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:45]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá félagsmálaráðuneyti Sturlaug Tómasson og frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana Jens Andrésson og Árna Stefán Jónsson.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er stefnt að því að auðvelda yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða á grundvelli laganna. Nokkur sveitarfélög hafa sýnt því áhuga að yfirtaka þjónustu við fatlaða en þar sem skort hefur lagaákvæði um réttarstöðu starfsmanna svæðisskrifstofu málefna fatlaðra við yfirtöku sveitarfélaga á þjónustunni hefur verið vandkvæðum bundið að ganga til slíkra samninga. Tímabundnir samningar hafa engu að síður verið gerðir en í þeim samningum tókst ekki að leysa starfsmannamálin þar sem lagaákvæði skorti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn sem eru í starfi þegar tímabundinn þjónustusamningur tekur gildi haldi starfi sínu. Ráðningarsamband ríkisins við þessa starfsmenn helst í sjálfu sér óbreytt, þeir starfa áfram sem ríkisstarfsmenn og fá greidd laun samkvæmt sömu kjarasamningum og réttur til aðildar að lífeyrissjóðum helst óbreyttur. Stjórnunarheimildir gagnvart starfsmönnum verða hins vegar framseldar tímabundið til sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar og þessir aðilar sjá einnig um að ráða nýja starfsmenn sem þörf kann að verða á að ráða og verða þeir, þ.e. hinir nýju starfsmenn, alfarið starfsmenn sveitarfélags, byggðasamlags eða héraðsnefndar en ekki í ráðningarsambandi við ríkið eins og nú er.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.