Málefni fatlaðra

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:50:29 (4813)

1999-03-10 23:50:29# 123. lþ. 84.24 fundur 564. mál: #A málefni fatlaðra# (starfsmenn svæðisskrifstofu) frv. 52/1999, Frsm. minni hluta GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:50]

Frsm. minni hluta félmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Með minnihlutaálitinu fylgir umsögn frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir nefndu einmitt á fundi félmn. að meginmálið væri náttúrlega hvort af yfirfærslu málaflokksins í heild verði eða ekki og þá hvernig henni verður hagað með tilliti til starfsmanna þessara stofnana þegar þar að kemur.

Það gæti auðvitað farið svo að ekki yrði af þessum flutningi og þar með yrðu þá þessir starfsmenn ríkisstarfsmenn. Það er það sem átt er við með að hugsanlega sé verið að hrófla við þessu. Þess vegna mæla þeir eindregið með því að Starfsmannafélag ríkisstofnana geti samið við sveitarfélögin á meðan málin eru í þessu limbói sem þau eru í.

A.m.k. var það okkar niðurstaða að ekki væri rétt að hrófla við þessu á meðan ákvörðun hefur ekki verið tekin um yfirflutning málaflokksins í heild.