1999-03-11 00:39:57# 123. lþ. 84.25 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:39]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég skila í þessu sérkennilega menningarpólitískt-viðskiptatengda kvikmyndaendurgreiðslumáli séráliti, svohljóðandi:

Frumvarpið er nýkomið fram og var fyrst vísað til iðnaðarnefndar sl. þriðjudag, 9. mars 1999. Því hefur allt of lítill tími gefist til efnislegrar skoðunar málsins. Tvísýnt verður að teljast að lögleiða þá endurgreiðslu af innlendum kostnaði við framleiðslu kvikmynda sem fyrst og fremst er verið að leggja í vegna gerðar erlendra kvikmynda hérlendis. Í þessu svonefnda hvatakerfi getur falist umtalsverð mismunun á aðstöðu innlendra framleiðenda gagnvart erlendum.

Með vísan til þessa leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 10. mars 1999.

Undir nál. ritar Hjörleifur Guttormsson.

Það leið ekki nema rétt sólarhringur frá því að málinu var vísað til nefndar formlega og þar til það hafði verið blessað og engin breyting gerð á. Það hlýtur því að vera hið vandaðasta mál af hálfu þeirra sem það flytja. Hæstv. iðnrh. stendur fyrir málinu. Það eitt út af fyrir sig er dálítið sérstakt í kvikmyndagerðarmáli að það skuli vera iðnrh. sem flytur. Sú skýring var uppi höfð í iðnn. að þetta væri kvikmyndaiðnaður.

Ég skal ekki hafa neinar hugleiðingar uppi um það. Út af fyrir sig getur hér verið mál sem er athugunar virði sem slíkt. En það gengur auðvitað ekki að viðhafa málsmeðferð eins og í þessu tilviki, þ.e. að mál komi inn í þingið, inn í nefnd, og það líði einn eða tveir sólarhringar. Þessu er húrrað í gegn og menn ætla að afgreiða það. Það eru vinnubrögð sem ég tek ekki þátt í, virðulegur forseti, og skila því áliti því sem ég hef hér kynnt.