1999-03-11 00:43:59# 123. lþ. 84.25 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:43]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísa til þess sem fram kemur í yfirliti frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. um þetta mál, að markmmið frv. sé að laða að erlenda aðila til að framleiða kvikmyndir eða sjónvarpsefni hér á landi. Ég held að það liggi alveg fyrir að rót þessa máls er að laða erlenda aðila hingað til lands.

Ég heyrði það líklega í framsögu --- svona í leiðinni --- að það ætti m.a. að bjóða náttúru Íslands og menningu að kynna það í leiðinni. Ég hef sett nokkurt spurningarmerki við það út af fyrir sig sem markmið. Ég held að það sé mikil rómantík og ekki mikil innstæða fyrir því að það hafi eitthvert gildi sem slíkt, t.d. í leikmyndum. Mér finnst miklu frekar spurning um að tekið sé aðstöðugjald af þeim aðilum sem hingað koma og ætla að nota íslenska náttúru og annað sem bakgrunn í sambandi við kvikmyndagerð. Það er verið að selja fyrir lítið aðgang að íslenskri náttúru.