1999-03-11 00:46:05# 123. lþ. 84.25 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, RA
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:46]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að það frv. sem hér er til umræðu hafi ótvíræða kosti í för með sér og á því séu ákaflega jákvæðar hliðar vegna þess að með samþykkt þess er líklegt að innlendir kvikmyndaframleiðendur geti fengið verkefni sem til falla vegna þess að erlendir aðilar komi til landsins og óski eftir að ráða þá í vinnu og nýta tæki þeirra og búnað. Hugsunin á bak við frv. er að efla íslenskt atvinnulíf og íslenska kvikmyndagerð með því að auka eftirspurn erlendra aðila eftir íslensku vinnuafli, íslenskum tækjum og búnaði. Þetta er kosturinn við frv.

Ég vil hins vegar láta koma skýrt fram að frv. er jafnframt meingallað. Á margan hátt er þetta frv. hin versta hrákasmíð og aldeilis ótrúlegt að bjóða þingmönnum upp á að eiga að afgreiða það á svo skömmum tíma sem raun ber vitni og án þess að nokkur kostur sé á að sníða af því þá agnúa sem á því eru.

Ég nefni 2. gr. frv. þar sem segir:

,,Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði hlutfall af framleiðslukostnaði.``

Orðið að ,,endurgreiða`` er yfirleitt notað í þeirri merkingu að áður hefur verið greitt og það er verið að skila til baka, það er verið að endurgreiða það sem áður hefur verið greitt. Þannig er t.d. endurgreiddur virðisaukaskattur sem þegar hefur verið greiddur í ríkissjóð o.s.frv. En það kerfi sem hér er verið að taka upp er allt annars eðlis.

Ef erlendur aðili kemur og eyðir 1.000 milljónum kr. á Íslandi þá ber íslenska ríkinu að greiða þessum aðila 120 millj. kr. Það er ekki af fé sem hefur komið inn í ríkissjóð heldur einfaldlega af því fé sem viðkomandi aðili hefur eytt hér á landi. Það er því ekki um raunverulega endurgreiðslu að ræða nema í allt annarri merkingu en það orð er yfirleitt notað í. Hér ætti einfaldlega að standa: ,,Heimilt er að greiða úr ríkissjóði``, í samræmi við ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar o.s.frv.

Ég vek á því athygli að í frv. eru sett ákveðin lágmörk þannig að sé mynd ódýrari en 80 millj. kr. fær hún ekki neinn stuðning samkvæmt frv. Sé kostnaður við kvikmynd á bilinu 80--100 milljónir er stuðningurinn 6%. Sé kostnaðurinn aftur á móti 100--120 milljónir er stuðningurinn 9% og síðan 12% ef hann nær því að vera 120 milljónir.

Ég segi það alveg hiklaust, herra forseti, að þetta er mikil mismunun gagnvart íslenskum kvikmyndaiðnaði. Það er alþekkt staðreynd að íslenskar kvikmyndir eru einmitt af þessari útgjaldagráðu, þær kosta á bilinu 60--70 milljónir og upp í kannski 100 milljónir. Erlendar myndir eru aftur á móti af annarri kostnaðargráðu, það er nokkurn veginn meginregla. Þær kosta töluvert miklu meira. Þetta er einfaldlega vegna þess að Íslendingar hafa bara ekki efni á að eyða svo miklum fjármunum í hverja kvikmynd fyrir sig að þeir hafa yfirleitt ekki yfir að ráða meira fé en, eins og ég hef þegar nefnt, um 60--120 millj. kr., meðan aftur á móti erlendar myndir kosta að jafnaði frá 300 millj. upp í einn milljarð ef ekki kannski tíu milljarða og stundum enn meira. Þar getur verið um ótrúlegar tölur að ræða.

Þær lágmarkstölur sem hér eru nefndar í frv. og að þær skuli einmitt settar á bilið 80--120 milljónir veldur því að verið er að útiloka íslensku framleiðsluna en verðlauna þá erlendu. Það er hreinlega verið að gera það. Það er verið að koma í veg fyrir að þetta nýtist íslenskum kvikmyndaframleiðendum til að búa til íslenskar myndir. Þetta nýtist vissulega ágætlega kvikmyndaframleiðendum sem eiga mikið af tækjum og aðstöðu, eiga salarkynni og upptökuaðstöðu þegar erlendir aðilar koma og vilja fá lánuð tækin þeirra, fá leigða aðstöðuna þeirra, fá leigða menn sem vinna hjá þeim og greiða þeim laun fyrir. Að því leyti er þetta styrkur fyrir íslenska kvikmyndagerð. Hins vegar er þetta mikil mismunun gagnvart þeim sem eru að búa til íslenskar myndir vegna þess að það er alveg óvíst að þeir fái nokkurn stuðning út úr þessu. Í öllu falli ef þeir fá einhvern stuðning eru miklar líkur á að hann sé verulega skertur. Það skil ég ekki.

Ég skil að vísu vel að það þurfi að vera eitthvert ákveðið lágmark þannig að hver sá sem lyftir kvikmyndavél og tekur upp mynd að eigi ekki endilega rétt á einhverjum stuðningi af þessu tagi. Það verður einhvers staðar að draga mörkin og segja hvað er alvörumynd og hvað eru svo aftur myndir sem teljast ekki með. En mörkin mega ekki vera svona há. Mörkin verða að vera miklu lægri. Ég hefði talið að mörk sem hefðu verið einhvers staðar á bilinu milli 10 og 30 milljónir hefðu kannski verið hæfileg. Nú hefði ég kannski sætt mig við mörk sem væru jafnvel aðeins hærri. En með því að setja mörkin upp í 80 milljónir er einfaldlega verið að útiloka talsvert margar íslenskar myndir. Ég tala ekki um þegar efri mörkin eru við 120 milljónir að þá er verið að veita þeim miklu minni fyrirgreiðslu en erlendum myndum.

En það sem er allra verst í þessu frv. og fráleitast er 7. gr. frv. þar sem segir:

,,Hafi umsækjandi hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu myndar fær hann ekki endurgreitt samkvæmt lögum þessum.``

Sem sagt, allar myndir sem fá minni háttar stuðning úr Kvikmyndasjóði Íslands, eru útilokaðar með einu pennastriki. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við í nefndinni gerðum ítrekaðar tilraunir til þess að fá breytt.

Íslenskir kvikmyndaframleiðendur lögðu til að styrkur úr Kvikmyndasjóði Íslands yrði dreginn frá við uppgjör á þessari svokölluðu endurgreiðslu og það hefði vissulega getað talist sanngjörn lausn. En það var ekki nokkur leið að koma vitinu fyrir meiri hluta nefndarinnar sem taldi að þetta yrði að vera nákvæmlega svona eins og það hafði komið frá hæstv. iðnrh., ella mundi einhver ónefndur aðili koma í veg fyrir það að frv. færi hér í gegn. Auðvitað var ekki hægt að skilja það á annan hátt en þann að það væri einmitt hæstv. ráðherra sem þá mundi stöðva málið, ef gerð yrði einhver örlítil bragarbót á því.

Á þetta reyndi í heilan sólarhring hvort ekki væri hægt að laga þetta lítillega en alltaf fengust sömu skilaboð: Ef gerð er einhver minnsta breyting á frv. þá fer það ekki í gegn. Því vildu menn auðvitað ekki bera ábyrgð á vegna þess að, eins og ég hef þegar tekið fram, hefur frv. ýmsa kosti og vitað er að íslenskir kvikmyndaframleiðendur, sem eiga búnað og tæki, munu fagna tilkomu frv. vegna þess að það er þeim styrkur eins og ég hef þegar rakið.

Við gætum staðið frammi fyrir því að tveir aðilar ætla að búa til mynd, við skulum segja víkingamynd. Annar er danskur og hinn er íslenskur. Danski aðilinn hefur ekki það umhverfi sem til þarf að gera víkingamynd. Hann óskar því eftir því að gera myndina á Íslandi. Danski aðilinn fær auðvitað styrk úr dönskum kvikmyndasjóði. Íslenski aðilinn fær líka styrk úr hinum íslenska kvikmyndasjóði. Niðurstaðan verður þá sú að danski aðilinn á að fá 12% styrk úr ríkissjóði af heildarkostnaði myndarinnar, sem við getum ímyndað okkur að sé kannski 200 millj. kr., hann á að fá 24 millj. kr. sem styrk úr ríkissjóði. En það er algjörlega bannað samkvæmt þessu frv. að styrkja íslensku myndina ef hún hefur fengið eitthvað úr íslenskum kvikmyndasjóði. Þetta er hrein mismunun.

Ég spurði ágætan sérfræðing í EES-samningnum hvort ekki væri ólöglegt gagnvart EES-samningnum að mismuna fyrirtækjum eftir því hvort þau væru íslensk eða erlend. En ég fékk þau svör að EES-samningurinn væri nú þannig að bannað væri að mismuna erlendu fyrirtækjunum en leyfilegt að mismuna íslensku fyrirtækjunum. Það væri sem sagt leyfilegt að veita erlendum fyrirtækjum betri kjör en bannað að veita þeim íslensku betri kjör. Þar af leiðandi mun þetta víst ekki heyra undir hin margfræga EES-samning.

Þetta mál er sem sagt meingallað og ég harma að hæstv. iðnrh. skyldi vera svo ósveigjanlegur að hann gat ekki fallist á að neinar breytingar væru gerðar á frv. því eins og ég hef þegar tekið fram þarfnast það mikilla breytinga.

Ég vil aðeins segja að endingu að þó að ég ætli að greiða þessu frv. atkvæði mitt vegna þess að ég veit að á sinn hátt getur það orðið íslenskum kvikmyndaiðnaði til góðs ætla ég samt að vonast mjög eindregið til þess að frv. verði hið fyrsta tekið til endurskoðunar og á því gerð veruleg bragarbót þegar á næsta þingi.