1999-03-11 00:59:35# 123. lþ. 84.25 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:59]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Ragnars Arnalds vil ég taka fram að ekki er við hæstv. iðnrh. að sakast í þessu máli. Staðreyndin í málinu er sú, eins og hér hefur komið fram, að málið kom seint fram til þingsins og við áttum ekki um annan kost að ræða. Ef þetta mál átti að ná fram til afgreiðslu, eins og kvikmyndagerðarmenn lögðu mjög ríka áherslu á að gæti orðið var aðeins um það að ræða að við næðum þessu máli í gegn með því að við skiluðum sameiginlegu nál. og gerðum ekki breytingar á frv. sem mundi kalla á umræður. Það var mat mitt eftir að hafa skoðað hvort möguleiki væri að koma málinu í gegn eftir eindregnar óskir kvikmyndagerðarmanna sjálfra um það að fá málið afgreitt. Ég vildi ekki taka þá áhættu að tefla málinu í þá tvísýnu og þess vegna bað ég nefndarmenn mjög um það að leggja sig fram um að við reyndum að ná samstöðu um þetta mál og afgreiða það frá nefndinni óbreytt.

Það koma tímar og ráð og þá má vissulega lagfæra þetta frv. En við vitum það sem störfuðum í nefndinni að það var mjög knýjandi af vissum ástæðum og vissum möguleikum sem blasa nú við íslenskum kvikmyndagerðarmönnum að fá málið afgreitt nú á þessu þingi. Það er ástæðan fyrir því að þetta mál ber svo skjótt að.

Að lokum þakka ég nefndarmönnum fyrir að bregðast við og hafa þó ríkan skilning á því, eins og hér kemur fram, að við skyldum þó skila þessu áliti svo samstiga inn.