1999-03-11 03:38:56# 123. lþ. 84.30 fundur 526. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (gjaldskrá sveitarfélaga) frv. 59/1999, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[27:38]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta umhvn. sem ég er einn aðili að varðandi þetta frv. og álit mitt er svohljóðandi:

,,Minni hlutinn er andvígur þeim breytingum sem í frumvarpinu felast og telur að mun betur hefði þurft að athuga heimildir um að setja gjaldskrár af hálfu sveitarfélaga fyrir eftirlitsskyldu.

Þá er minni hlutinn andvígur breytingartillögu meiri hlutans þar sem verið er að setja fulltrúa atvinnurekenda á hverju eftirlitssvæði inn í heilbrigðisnefndir með fullum réttindum. Slíkt stangast á við eðlilega stjórnsýslu og veitir þeim sem haft skal eftirlit með ákaflega sterka stöðu. Er ólíklegt að slík stjórnsýsla samræmist alþjóðlegum venjum og kann að varða alþjóðlegar skuldbindingar.

Með vísan til þessa leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Ég held ég fari rétt með að þessi brtt. var ekki sýnd í umhvn. og ekki rædd þar. Andstaða er við þessa brtt. sem er felld inn í nál. sem er ríkari ástæða af minni hálfu en gjaldskrárnar fyrir því að ég gat ekki staðið að afgreiðslu þessa máls. Og ég er mjög undrandi á því að menn skuli fara fram með þessa breytingu og tel að þurft hefði að skoða málið miklu betur, bara út frá almennum sjónarmiðum, áður en farið væri að breyta nýlega settum lögum á þennan hátt.

Ég vil leyfa mér að spyrja talsmann meiri hlutans, hv. formann nefndarinnar, hvort gengið hafi verið úr skugga um það af hálfu þeirra sem tillöguna flytja að hér sé á ferðinni það sem kalla mætti eðlilega stjórnsýslu og að ekki sé gengið gegn alþjóðlegum samþykktum um hagsmuna\-árekstra, því að mér finnst það blasa við að með því að ætla að taka fulltrúa atvinnurekenda með fullum réttindum inn í heilbrigðisnefndir séu menn í rauninni að rugla svo saman reytum að það nái ekki nokkurri átt. Ég bendi í þessu samhengi t.d. á hve aðrir þættir eins og neytendasjónarmið eða almannasjónarmið hafa veika stöðu fyrir í þessum nefndum og gagnrýni mjög að við þessar aðstæður skuli flutt brtt. af þeim toga sem hér um ræðir án þess að umfjöllun verði í nefndinni um málið. Ég óska eindregið eftir skýringum á þessu og hvaða athuganir liggja fyrir í málinu og mundi ekki saka að hæstv. umhvrh. gerði einnig grein fyrir viðhorfum sínum og ástæðum fyrir því að breyta nýlega settum lögum um hollustuhætti á þennan máta.