1999-03-11 03:46:23# 123. lþ. 84.30 fundur 526. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (gjaldskrá sveitarfélaga) frv. 59/1999, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[27:46]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að svara seinustu spurningunni. Mér er ekki kunnugt um að neitt hafi verið skoðað um Evrópurétt eða tengsl við hann í þessu efni. Brtt. sem hér er lögð til var ekki í frv. eins og hv. þm. vita, eins og ég lagði það fram eða eins og það kom frá umhvrn. Málið er að hér er verið að leggja það af að ráðuneytið staðfesti gjaldskrá sveitarfélaga. Áður var það svo að gjaldskrár sveitarfélaga á sviði hollustuhátta voru lagðar fyrir ráðuneytið og það þurfti að staðfesta þær. Í hinni nýju löggjöf er síðan gert ráð fyrir að ráðuneytið setti eina hámarksgjaldskrá sem sveitarfélögin færu síðan eftir og bæri þannig ábyrgð á þessu máli á vissan hátt. Þegar sest var niður við að reyna að semja þessa hámarksgjaldskrá á liðnu hausti kom strax upp mikill ágreiningur við sveitarfélögin um málið. Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eindregið eftir að þarna yrðu gerðar á breytingar, og reyndar einnig fulltrúar einstakra sveitarfélaga. Ráðuneytið féllst á að frekar yrði gefin út viðmiðunargjaldskrá eða leiðbeinandi reglur eins og þetta er kallað hér. Í kjölfar þess, þegar málið var komið inn í þingið og nefndin hafði fengið það til umfjöllunar, kom síðan upp þessi eindregna ósk frá atvinnurekendum við þá breytingu að ráðuneytið kemur ekki frekar að gjaldskrárgerðinni sem slíkri og staðfestir ekki gjaldskrárnar, að þátttaka atvinnurekanda í heilbrigðisnefndunum yrði styrkt og á það hefur meiri hluti umhvn. fallist með samþykki mínu. En málið kom ekki svo frá ráðuneytinu eins og vitað er.