1999-03-11 03:50:20# 123. lþ. 84.30 fundur 526. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (gjaldskrá sveitarfélaga) frv. 59/1999, RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[27:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef komið nokkrum sinnum upp í nótt og spurt hvað valdi því að okkur sé nauðugur sá kostur að vera að störfum fram undir morgun þegar fyrir liggur að við höfum verið kölluð til starfa kl. 10 næsta morgun. Ég ætla að lýsa alveg sérstakri ánægju minni með að forsrh. og þar með oddviti þess stjórnarmeiri hluta sem hér ræður ferð skuli vera með okkur þessa morgunstund vegna þess að mér sýnist að það sé að koma í ljós hvers vegna við verðum að vera hér og hvers vegna við verðum að ljúka þessum málum og af hverju alls ekki megi skoða það að taka hálftíma eða klukkutíma á morgun þegar fólk hefur hvílt sig til að ljúka þeim málum sem eftir eru á dagskrá. Fram að þessu hefur ekki nokkur maður neitað því að fallast á að ljúka þessum málum. En það er nú spurning hvort það eigi eftir að koma upp áður en sá dagur sem hér er runninn er á enda. Mér sýnist að það sé að koma í ljós hvers vegna við erum að afgreiða þessi mál í skjóli nætur ef það er svo að bæði síðustu mál á dagskrá fundarins séu þess eðlis að þau þola vart dagsljósið, það síðasta vegna þess að nefndin hefur --- ég mun koma að því síðar í umræðu um það --- komið með brtt. sem er í raun og veru nýtt frv. og hefði því nefndin átt að flytja það sem slíkt. Ef ég skil hv. þm. Hjörleif Guttormsson sem er fulltrúi í umhvn. rétt þá sýnist mér að eftir að umfjöllun um málið lauk í umhvn. þá hafi menn tekið inn ákvæði sem alls ekki hefur legið ljóst fyrir hver voru. Ég óska a.m.k. eftir að fá skýr svör um þetta því þannig virkar málið á mig sem hlusta á umræðuna. Það er afskaplega mikil breyting þegar teknir eru inn annaðhvort fulltrúar frá atvinnurekendum eða fulltrúar frá verkalýðsfélögum, þ.e. ef ekki er jafnræði þar á milli, í nefndir og ráð þar sem þeir hafa ekki verið. Þegar ég hef tekið þátt í að vinna slík verk hefur þótt viðhlítandi að kalla eftir sjónarmiðum ef slíkt kemur inn í lokastörfum nefndar. Ég tek undir að það er fremur undarlegt að sjá að verið er að falla frá meðferð gjaldskrársetningar þegar það gerist á sama tíma að sveitarfélag fær heimild til að setja gjaldskrá um eftirlitsskylda starfsemi og horfið er frá því að ráðherra setji hámarksgjaldskrá sem gildi fyrir öll sveitarfélög, en um leið er verið að setja fulltrúa atvinnulífsins inn í heilbrigðiseftirlitið. Mér finnst alls ekki ljóst hvaða meðferð þetta fékk í nefndinni og ég óska eftir því, herra forseti, að nú verði það skýrt mjög vel hvernig haldið var á málum og á hvaða stigi í umfjöllun nefndarinnar þessar ákvarðanir komu inn.