Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 11:18:02 (4915)

1999-03-11 11:18:02# 123. lþ. 85.15 fundur 585. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# frv. 43/1999, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[11:18]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Afgreiðsla þessa máls er gerð í miklu flaustri. Málið kom fram fyrir örfáum dögum og ég tel að það hafi engan veginn fengið þá meðferð sem þyrfti. Ég tel líka að álitaefni séu í þessu máli að því er varðar aðstöðu innlendrar kvikmyndagerðar með tilliti til erlendrar og því legg ég til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég vek alveg sérstaklega athygli á 7. gr. þar sem segir að þeir sem hafa hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu myndar fái ekki endurgreitt samkvæmt lögum þessum. Þetta er eitt dæmi um skelfilega mismunun samkvæmt þessu frv.