Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 11:41:13 (4924)

1999-03-11 11:41:13# 123. lþ. 85.18 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hafna því að sjálfsögðu að vísa tillögunni til ríkisstjórnarinnar sem hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að undirrita Kyoto-bókunina fyrir tilskilinn frest, þ.e. 15. mars nk. Ég gagnrýni þá ákvörðun harðlega og harma þá glópsku. Með því er ríkisstjórnin að skáka okkur út í horn í þessu máli. Í undirskrift felst í rauninni aðeins yfirlýsing viðkomandi ríkis um að það telji samninginn mikilvægan og stefni eindregið að staðfestingu hans. Slíka yfirlýsingu vill ríkisstjórnin ekki gefa. 77 ríki eru búin að undirrita bókunina, þar af öll OECD-ríkin nema Ísland. Þrjú ríki hafa þegar staðfest samninginn. Með einstrengingslegri afstöðu sinni er ríkisstjórnin að setja Ísland í afar neikvætt ljós og veikja stöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi. Ég segi nei.