Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 12:17:56 (4937)

1999-03-11 12:17:56# 123. lþ. 85.22 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um atkvæðagreiðsluna til þess að gera lýðum ljóst og taka af öll tvímæli í þá veru að yfirskrift þessarar greinar, 22. gr., jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, er mjög misvísandi og villandi. Hér verða auðvitað ekki greidd atkvæði um þá tillögu sem hér um ræðir heldur um allt aðra tilögu sem samstaða náðist um í samgn. þingsins og ég stend að og lýtur að því að samgrh. verði falið að gera langtímaáætlun um gerð jarðganga hérlendis. Þó að ég hafi staðið að þessu nál. skal ég játa það á mig að það er ónákvæmni í nál. á bls. 2 þar sem segir að nefndin leggi til að tillagan, þ.e. tillaga um jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar verði samþykkt með svofelldum breytingum. Þegar hin svonefnda brtt. er síðan lesin kemur í ljós að hún á ekkert sammerkt með upphaflegu tillögunni annað en að jarðgöng ber á góma í þeim báðum. Eðlilegast hefði sennilega verið að athuguðu máli að nefndin hefði einfaldlega flutt sjálfstæða tillögu án tengsla við þáltill. nokkurra þingmanna.

Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi mjög skýrt fram. Ég stend að þessari tillögu nefndarinnar en undirstrika þann skilning minn að auðvitað er þingið þá um leið að láta liggja í besta falli, vísa frá í kannski ýtrasta skilningi þeirri þingmannatillögu sem er í hinni skrifuðu dagskrá.

Ég undirstrika einnig, herra forseti, að ég er ekki að taka efnislega afstöðu til hennar og hún kemur vel til álita í þeirri langtímaálitsgerð sem samgrh. mun láta fara fram en það er mikilvægt að halda þessu öllu til haga, ekki síst á þessum síðustu og verstu tímum þegar samgrh. landsins, sem ekki er viðstaddur í þessum þingsal en í kjördæmi sínu fyrir norðan, hefur eina skoðun á því sem hér er sagt og hér er skrifað en sitjandi þingmenn stjórnarliðanna hafa síðan allt aðrar skoðanir. Þessi jarðgangaloforðasmíð stjórnarliða núna rétt fyrir kosningar er eins og grín úr gömlum myndum. Hins vegar er algerlega nauðsynlegt, herra forseti, áður en atkvæðagreiðsla fer fram að hv. þingmönnum sé þetta alveg ljóst.