Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 12:31:23 (4947)

1999-03-11 12:31:23# 123. lþ. 85.22 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Skömm ríkisstjórnarinnar allrar í sambandi við jarðgangamálefni er mikil og ekki batnar málið fyrir ríkisstjórnina við málsmeðferðina eins og það er hér fyrir lagt. Þar vegast á stjórnarflokkarnir sem hafa verið að glíma með ráðherra sína í fararbroddi um áróðurstillögur og málsafgreiðslan endurspeglar glímuna.

Auðvitað er með öllu fráleitt að standa að afgreiðslu máls eins og hér er gert og formaður samgn. hefur ekki vaxið að virðingu við þessa tillögugerð eða aumlegan rökstuðning sinn fyrir því hvernig málið er hér fyrir lagt.

Það er líka ljóst af þessu máli að Sjálfstfl. er með málsmeðferðinni að reyna að stela hugmyndum frá Framsfl. Hann tekur tillögu sem hér liggur fyrir frá framsóknarmönnum nær orðrétt og færir undir merki eins þingmanns eða tveggja Sjálfstfl. (Gripið fram í: Þetta er rétt.) Innihald tillögunnar í heild sinni er þannig að ég get staðið að henni en auðvitað breytir það engu og menn ættu að varast að framlengja umboð þessara flokka inn á næsta kjörtímabil.