Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:32:09 (4966)

1999-03-11 15:32:09# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eftir að ríkisstjórnin hafði í upphafi kjörtímabils rofið tengsl milli launa og lífeyrisgreiðslna, þá boðaði hæstv. heilbrrh. fyrir jólin það sem hún kallaði stærsta skrefið sem stigið hefði verið í sögu almannatrygginga í 60 ár. Hvað var það sem hún boðaði fyrir jólin? Það skilaði sér í því að öryrkjar fengu til baka sem jafngilti rúmum 200 kr. á mánuði hjá þeim sem höfðu fullar bætur, en um 50 kr. hjá þeim sem eingöngu höfðu grunnlífeyri. Sama hænufetið er ráðherrann að boða nú í lok kjörtímabilsins þegar við blasir neyðarástand hjá öryrkjum. Hún boðar nú úr ræðustólnum að afnema skerðingu á uppbót sem hún setti sjálf 1996 ef öryrki sparar. Nú er hún að afnema það sem hún setti sjálf 1996. Hæstv. ráðherra boðar nú einnig afnám skerðingar á heimilisuppbót öryrkja ef hann eignast barn eða býr með börnum sínum. Í því máli er nú dómsmál yfirvofandi og hæstv. ráðherra virðist ekki afnema skerðingar fyrr en málssókn er yfirvofandi samanber þessa breytingu og hænufetið sem ráðherrann steig með því að afnema tekjutengingu við tekjur maka að hluta til sem ráðherra lét stjórnarliðið lögfesta þótt það væri brot á alþjóðasamningum og ákvæðum stjórnarskrár.

Herra forseti. Það var athyglisvert að hæstv. heilbrrh. notaði megnið af ræðutíma sínum til þess að ráðast á þá sem hér stendur í stað þess að ræða um bágborna stöðu öryrkja. Það skal ég segja hæstv. ráðherra að ef ríkisstjórnin sem var á undan þessari ríkisstjórn hefði haft 100 milljörðum meira úr að spila eins og þessi ríkisstjórn hefur haft, þá hefði ekki vafist fyrir þeirri ríkisstjórn eitt augnablik að eyða 7,5 milljörðum af þeim 100 milljörðum til þess að hækka lífeyri öryrkja um 20 þúsund á mánuði, en hæstv. ráðherra boðar að það kosti 7,5 milljarða. Það munar svolítið um það að hafa 100 milljörðum meira til ráðstöfunar en fyrri ríkisstjórn, nú á tímum góðæris eins og þessi ríkisstjórn hefur haft. Og það verð ég að segja, herra forseti, að samkvæmt viðamestu könnun sem gerð hefur verið á viðhorfum fólks til velferðarsamfélagsins og málefna öryrkja, þá kemur fram að meginþorri þjóðarinnar er búinn að fá nóg af því hvernig farið er með öryrkja. Þess vegna eru til skammar nú í lok kjörtímabilsins þau hænufet sem hæstv. ráðherra boðar hér þó að við vitum að neyðarástand ríki á þúsundum heimila öryrkja í þessu landi. Það er full ástæða til þess að mótmæla af fyllstu hörku sveltistefnu ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili á tímum góðæris gagnvart öryrkjum í landinu.