Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:35:11 (4967)

1999-03-11 15:35:11# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Svona umræða í þingsalnum er oft býsna fróðleg. Það kemur fram hverjir eru að reyna að koma með yfirboð, gylliboð, útúrsnúninga og þess háttar og hverjir reyna að ræða málin í alvöru og efnislega. Ég kalla það útúrsnúninga hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni áðan í sambandi við þá staðreynd að þegar fólk lætur af störfum eða getur ekki lengur unnið, þá þurfi það ekki lengur á vinnufatnaði að halda. Ég kalla það útúrsnúninga sem hann fór með í því sambandi. (Gripið fram í.) Ég kalla það útúrsnúninga sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði rétt í þessu, þ.e. að núverandi ríkisstjórn hefði 100 milljörðum meira úr að spila en sú síðasta. Fjárlögin eru upp á 160 milljarða. (Gripið fram í.) Ætlar þingmaðurinn að halda því fram að fjárlög hafi hækkað um 100 milljarða síðan hún sat í ríkisstjórn? Þetta er auðvitað fjarstæða og það veit þingmaðurinn.

Herra forseti. Ég ætlaði að segja að það hefur komið fram í þessari umræðu, og það er auðvitað mjög mikilvæg staðreynd í þessu sambandi, að kjör öryrkja eru misjöfn. Þau eru mjög misjöfn. Mér dettur ekki í hug að einn einasti maður hér inni vilji ekki í alvöru bæta kjör öryrkja og þeirra sem verst eru settir í þeirra hópi. Það er útúrsnúningur að halda því fram um kjör öryrkja, t.d. á tímabili Jóhönnu Sigurðardóttur sem félmrh., að kaupmáttur bótanna hafi lækkað um 20% 1987--1994 vegna þess að illmenni hafi setið í ríkisstjórninni. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að hún sé illmenni vegna þessa. Þetta var vegna annarra ytri aðstæðna. En hitt er málið að kjörin (Gripið fram í.) eru mismunandi. Á árunum 1988--1991 sátu aðrir flokkar í ríkisstjórn, hv. þm., eins og hv. þm. ætti nú að muna og þá var kaupmáttarhrapið mest. (ÖJ: Er Sjálfstfl. ...) Málið er, herra forseti, ef ég get fengið frið til að tala fyrir Ögmundi Jónassyni, (Forseti hringir.) að kjör öryrkja eru misjöfn. Við eigum að taka höndum saman um að reyna að bæta kjör öryrkja, ekki síst þeirra sem hafa úr minnstu að moða og standa höllustum fæti og við eigum að reyna að greina hvaða hópar þetta eru. Við eigum að reyna að finna þá og koma þeim til aðstoðar í stað þess að standa hérna og snúa út úr hver fyrir öðrum. (ÖJ: ... hjálparstofnanirnar þá?) Hefur hv. þm. gert úttekt á því, og eins Jóhanna Sigurðardóttir, ég spyr, hve margir einstaklingar leituðu til hjálparstofnana þegar þetta fólk var ráðherrar? Hefur hv. þm. það á takteinum? (JóhS: Aldrei verið fleiri en núna á tímum góðæris.) Nei, það er einmitt það. Og sennilega hefur Hjálparstofnun kirkjunnar heldur aldrei verið öflugri í sínu starfi (JóhS: Það hafa aldrei verið fleiri en nú.) og aldrei verið duglegri í að hjálpa fólki heldur en nú. Ég vænti þess að hún muni leita þessara upplýsinga.

Ef ég get fengið frið til að ljúka máli mínu, herra forseti, þá vil ég segja að kjör öryrkja eru ekki einkamál þeirra sjálfra. Þetta er mál allra í þjóðfélaginu. Öryrkjar eru hluti af okkur, okkar samfélagi, og enginn veit hver verður næsta fórnarlamb sjúkdóma eða slysa og lent í þessum hópi. Það er þess vegna alvörumál þegar verið er að fjalla um þetta. Og það er alvörumál að reyna að bæta þessi kjör og gera þau betri og það er fjarstæða að ég hafi, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði, staðið hér áðan og stært mig af kjörum öryrkja. Ég frábið mér þessa útúrsnúninga. Ég hef ekki stært mig af þeim. Ég hef bent á þá staðreynd að kjör öryrkja hafa sem betur fer batnað á þessu kjörtímabili, að vísu ekki nógu mikið. Við munum halda áfram að reyna að bæta þessi kjör en það verður ekki gert með málflutningi af því tagi sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir standa fyrir í hverju málinu á fætur öðru, þ.e. með yfirboðum, gylliboðum, útúrsnúningum og öðru af því tagi, herra forseti. (JóhS: Ráðherranum líður illa.)