Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:57:32 (4976)

1999-03-11 15:57:32# 123. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég geri grein fyrir brtt. við frv. til laga um Háskóla Íslands á þskj. 1192. Eins og fram kom við 2. umr. um frv. í nótt er mikil sátt um þetta nýja frv. til laga um Háskóla Íslands. Menntmn. skilaði einu áliti en við fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara vegna orðalags 18. gr. Þar er tekist á um það hvort stúdentaráð skuli yfir höfuð nefnt í lagatextanum, hvort það verði viðurkennt sem fulltrúasamkoma stúdenta eða sett á sama stall og hvert annað félag þeirra. Um þetta var tekist í stúdentaráðskosningum fyrir skömmu þar sem fulltrúar Röskvu lögðu áherslu á stúdentaráð sem lýðræðislega kjörin fulltrúasamtök stúdenta. Svo hefur reyndar verið allt frá 1920. Í ráðinu sitja 22 fulltrúar háskólastúdenta, en ekki allir stúdentar. Því er mjög skýrt að ekki er um félag að ræða heldur fulltrúasamkomu stúdenta.

2. mgr. 18. gr. frv. var orðuð í frv. á eftirfarandi hátt:

,,Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, ...`` o.s.frv. um tiltekna þjónustu.

Þessu orðalagi mótmælti meiri hluti stúdentaráðs og menntmn. breytti orðalaginu til samræmis við vilja þeirra. Hún lagði fram brtt. sem var samþykkt í morgun. Þar segir:

,,Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra og félög, ...`` um að taka að sér tiltekna þjónustu.

Þetta orðalag hefur þann stóra ókost að stúdentaráð hefur ekki lengur lagastoð. Það er hvergi nefnt í frumvarpstextanum þrátt fyrir mótmæli stúdenta. Stúdentar virðast hins vegar sætta sig við það orðalag sem menntmn. lagði til þó að stúdentaráð sé eingöngu nefnt í nefndaráliti. Það er mjög athyglisvert að þeir skuli sætta sig við þetta núna, enda fengu þeir nýlega mjög mikla hækkun á frítekjumarki og framfærslumati vegna námslána, þ.e. upp á 300 millj. kr. Þessi tímasetning er því mjög sérkennileg.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar mátum það svo að samþykkt orðalag væri það eina sem kæmi til greina. Í umræðum um málið í nótt mátti aftur á móti skilja hæstv. menntmrh. þannig að hann hefði ekkert á móti því að stúdentaráð væri nefnt í lagatextanum. Þess vegna leggjum við, ég og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, fram brtt. á þskj. 1192 þar sem orðalagið er eftirfarandi:

,,Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð, félög stúdenta, ...`` um tiltekna þjónustu.

Það væri mjög ánægjulegt ef þingið samþykkti þessa tillögu því að þá færi frv. í gegnum þingið í fullkominni sátt.