Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 16:19:16 (4981)

1999-03-11 16:19:16# 123. lþ. 87.11 fundur 612. mál: #A stjórn fiskveiða# frv. 9/1999, LB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur stend að þessu frv. og styð heils hugar þær tillögur sem þar birtast. Það er rétt hjá hv. þm. sem talaði áðan að í nefndinni fór fram mikil umræða um það til hvaða aðgerða ætti að grípa á síðustu stundu. Því er ekki að neita að í þessu frv. er einum hópi lyft örlítið umfram aðra en við lögðum áherslu á það í umræðu í nefndinni að einnig yrði litið til fleiri hópa.

Í því samhengi lagði sá er hér stendur sérstaka áherslu á að reglum um Kvótaþing yrði breytt, þ.e. að við viðurkenndum þau mistök sem við gerðum fyrir ári síðan að koma Kvótaþinginu á sem hefur aðeins leitt til þess að verð á aflaheimildum hefur hækkað til mikilla muna og er þannig upp byggt að það getur ekki annað en hækkað. Það er ekki hinum dreifðu byggðum til bóta. Við lögðum því á það verulega áherslu að fá þessu breytt eða a.m.k. hnikað til. Meðal annars lögðum við fram eða tókum undir þær hugmyndir sem þegar höfðu komið fram um að heimilt yrði að útgerðarmenn og sjómenn gerðu samninga um að fá að veiða fyrir aðra ef opinber stofnun stimplaði slíka samninga og það gæti orðið til þess að treysta kvótalitlar útgerðir og útgerðir sem veiða einkanlega við ströndina. Við lögðum því á það verulega áherslu að gerð yrði bragarbót á núverandi reglum um Kvótaþing. Því miður náðist ekki samkomulag um það og meiri hlutinn vildi ekki standa að því að breyta þeim reglum sem nú gilda um þetta þing svo lengra varð ekki komist í þeim efnum.

Það voru ýmis fleiri atriði sem við nefndum, m.a. sú jafnræðisregla sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fór yfir áðan. En það breytir ekki því að ég held að frv. sem hér liggur fyrir sé til bóta og þær reglur sem ætlunin er að lögfesta. Við stöndum því heils hugar að því en vekjum sérstaka athygli á að því miður varð ekki lengra komist í þessum efnum og því lítur frv. út eins og það gerir í þinginu í dag.